Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í morgun. Fundurinn fór fram í Downingstræti 10. Brexit, alþjóðasamvinna og uppgangur populisma er meðal þess sem Katrín og May ræddu á fundinum.
„Það er ljóst að sú staða sem uppi er í breskum stjórnmálum í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu úr Evrópusambandinu er mjög flókin” segir Katrín. „Nú er tímabært að huga frekar að framtíðarsambandi ríkjanna. Við vorum einnig sammála um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu en hún á víða undir högg að sækja.“
Katrín segir mikilvægt að Ísland og Bretland haldi sínum góðu tengslum. Hún segir May á sama máli.
Katrín og May ræddu meðal annars um aðgerðir til að á kolefnishlutleysi og um plastmengun í hafi. Mikil umræða hefur skapast í Bretlandi um mikilvægi aðgerða gegn loftslagsvandamálum. Þá var einmitt rætt jafnréttismál.
„Við ræddum um aðgerðir til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi en Theresa May hefur látið sig þann málaflokk varða á sínum pólitíska ferli. Ég tel mikilvægt að við horfum út fyrir landsteinana til að takast á við þessi mál og á það einnig við mansal og ofbeldi gegn konum og börnum á netinu, en þar hafa bresk stjórnvöld sinnt mikilvægri stefnumótun,“ segir forsætisráðherra.
Leiðtogaráð Evrópusambandsins hefur veitt Bretlandi frest til útgöngu úr ESB. Útgangan átti að taka gildi 12. apríl síðast liðinn. Núverandi frestur rennur út 31. október á þessu ári. Hins vegar er fresturinn sveigjanlegur en náist samkomulag á þinginu verður útgöngu flýtt. Theresu May hefur gengið brösulega að ná Brexit útgöngusaming í gegnum þingið. Hún hefur boðist til að stíga til hliðar, ef samningur hennar yrðir samþykkur. Það bar lítinn árangur og honum var hafnað í þriðja sinn. Nái breska þingið ekki samkomulagi mun Bretland ganga út úr Evrópusambandinu án samnings.