Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Samherjamenn kæra Má og aðra starfsmenn Seðlabankans til lögreglu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorsteinn Már Baldvinsson og stjórn Samherja hafa kært Má Guðmundsson og þrjá aðra núverandi og fyrrverandi starfsmenn Seðlabanka Íslands til lögreglu. Tilefnið er málarekstur Seðlabankans vegna meintra gjaldeyrislagabrota Samherja.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á vef fyrirtækisins. Sem kunnugt er réðist Seðlabankinn í umfangsmikla rannsókn á Samherja vegna meintra brota á gjaldeyrislögum. Hófst rannsóknin með umfangsmikilli húsleit og áralangri rannsókn en öllum málum gegn fyrirtækinu hefur verið vísað frá af þar til bærum yfirvöldum.

Í yfirlýsingu Samherja segir að Seðlabankinn hafi formlega hafnað beiðni Samherja um sáttafund til að ákvarða bætur og málalok vegna „tilhæfulausra aðgerða bankans gegn Samherja sem staðið hafa í rúm sjö ár.“ Þetta hafi bankinn ákveðið þrátt fyrir að formaður bankaráðs hafi tjáð Alþingi að hann teldi slíkan sáttafund eðlilegan af hálfu bankans og að umboðsmaður Alþingis telji að bankinn eigi að eiga frumkvæði að því að enduregreiða álagða sekt.

„Aðgerðir Seðlabanka Íslands gegn Samherja eru fordæmalausar. Bankinn fór í húsleit án þess að hafa rökstuddan grun um brot, upplýsti fjölmiðlamenn um fyrirhugaða húsleit og sendi út fréttatilkynningu um víða veröld þar að lútandi þegar húsleitin var rétt byrjuð. Ekki nóg með að húsleitin byggðist á órökstuddum grun og kolröngum útreikningum sem dómstólar staðfestu seinna að hefðu verið rangir, heldur var seðlabankastjóra á þessum tíma kunnugt um veikan grundvöll gjaldeyrisreglna enda örfáum mánuðum áður búinn að ræða það sérstaklega á blaðamannafundi. Allt kom fyrir ekki, reitt var hátt til höggs og vorið 2013 kærði bankinn Samherja og tengd fyrirtæki fyrir ætluð brot upp á tugi milljarða,“

segir í yfirlýsingunni. Enn fremur segir að Samherji hafi reynt að ljúka málinu frá því í ársbyrjun 2017. Seðlabankanum hafi verið boðið til viðræðna um að bæta Samherja hluta þess kostnaðar sem hlaust af málinu en að seðalbankastjóri hafi kosið að hundsa það erindi. Það var svo 15. þessa mánaðar sem lögmaður Seðlabankans hafnaði formlegri beiðni um slíkt bréfleiðis. Aukinheldur hafi bankinn sent Þorsteini bréf þar sem bankinn kvaðst ekki ætla að endurgreiða þá sekt sem lögð var á Þorstein. Segir Þorsteinn að þessi tvö bréf séu lýsandi fyrir framkomu stjórnenda Seðlabankans og að málareksturinn hafi verið rekinn á annarlegum sjónarmiðum.

Vegna þessa muni Samherji höfða skaðabótamál gegn Seðlabankanum.

Enn fremur er fullyrt í yfirlýsingunni að starfsmenn Seðlabankans hafi tekið fjölmargar ákvarðanir um aðgerðir gegn Samherja „í vondri trú og gegn betri vitund.“ Slík háttsemi varði við refsilög og feli í sér ásetningsbrot um rangar sakargiftir. Þar sem almennir borgarar séu látnir sæta refsingu fyrir slíka framkomu sé rétt að starfsmenn Seðlabankans sitji við sama borð í þeim efnum.

- Auglýsing -

„Stjórn Samherja og ég persónulega höfum því talið nauðsynlegt að beina kæru til lögreglu á hendur Má Guðmundssyni, Arnóri Sighvatssyni, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, Rannveigu Júníusdóttur og Sigríði Logadóttur. Hefur kæra verið lögð fram hjá lögreglu. Þetta er ekki sú leið sem við hefðum kosið og höfum reynt að forðast en eins og hér hefur verið rakið er hún óhjákvæmileg,“

segir í niðurlagi yfirlýsingarinnar. Már er sem kunnugt seðlabankastjóri en embættistími hans rennur út í lok sumars og er ráðningarferlið fyrir eftirmann hans þegar hafið. Arnór Sighvatsson er á meðal umsækjenda en hann var aðstoðarseðlabankastjóri um árabil. Ingibjörg Guðbjartsdóttir var framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans áður en Rannveig Júníusdóttir tók við starfi hennar og Sigríður Logadóttir er yfirlögfræðingur Seðlabankans.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -