Arion banki á greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor í gegnum dótturfélag og ætlar sér að selja Valitor á árinu 2019. Til þess hefur bankinn ráðið alþjóðlega bankann Citi til að veita söluráðgjöf.
Í fjárfestakynningu bankans vegna ársreiknings hans kemur fram að Valitor sé nú flokkað „sem starfsemi til sölu frá og með fjórða ársfjórðungi.“ Þar segir enn fremur að fyrirhugað söluferli Valitor sé komið á næsta stig og stefnt sé að því að markaðssetning hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2019. Það þýðir fyrir marslok.
Vandamálið er að Valitor lítur að mörgu leyti ekkert sérstaklega vel út um þessar mundir. Valitor Holding, dótturfélag Arion banka sem heldur á eignarhaldinu, tapaði 1,9 milljarði króna í fyrra. Félagið hafði skilað um 940 milljón króna hagnaði ári áður. Í ársreikningi Arion banka kom fram að tapið sé vegna fjárfestingar í alþjóðlegri starfsemi Valitors og að það hafi haft töluverð áhrif á lakari afkomu samstæðu Arion banka. „Valitor er í mikilli uppbyggingu erlendis og hefur í þeim fasa verið rekið með rekstrartapi,“ segir í ársreikningnum. Í þeirri uppbyggingu hefur meðal annars falist að ná í stóra viðskiptavini á Írlandi og í Bretlandi.
Það er þó fleira sem telur. Einn stærsti viðskiptavinur Valitor, Stripe, hætti færsluhirðingarviðskiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018, líkt og Kjarninn greindi frá í mars í fyrra að stæði til. Þessi ákvörðun Stripe leiddi til þess að velta fyrirtækisins fluttist frá Valitor sem „hafði talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu.“
Til viðbótar var greint frá því í vikunni að héraðsdómur Reykjavíkur hafi gert Valitor að greiða Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) 1,2 milljarða króna í skaðabætur fyrir að slíta samningi um greiðslugátt fyrirvaralaust. Fjölmiðillinn Wikileaks tók við styrkjum fyrir starfsemi sína í gegnum greiðslugátt sem Datacell og Sunshine Press Production (SPP) ráku. Greiðslugáttin var opnuð 7. júlí 2011 en degi síðar sleit Valitor samningnum fyrirvaralaust.