Umræða um misskiptingu hefur farið hátt á seinustu árum. En hvernig skiptast fjármagnstekjur milli kynslóða?
Í grein sem birtist í Mannlífi á dögunum var skoðað hvernig heildartekjur, og hlutur einstaklinga í greiðslu tekjuskatts, skiptist eftir aldursárum. Við sáum hvernig tekjur — og hlutur einstaklinga í greiðslu tekjuskatts — vaxa frá unglingsárum fram á miðjan aldur, og fara svo þverrandi fram á efri ár. Upplýsingarnar eru fengnar úr staðtölum ríkisskattstjóra, sem áhugavert er að kanna frekar, og munum við hér skoða hvernig fjármagnstekjur dreifast á einstaklinga eftir aldri.
Hér fyrir neðan sjáum við hvernig heildartekjur einstaklinga, þ.á.m. fjármagnstekjur, skiptast eftir tekjustofnum fyrir aldursár (mynd 1).
Varla kemur á óvart að fyrri hluta ævinnar eru helstu tekjur einstaklinga í formi launa (blátt svæði) og á efri árum lífeyris- og tryggingargreiðslur (rautt svæði). Síðasti stóri tekjustofninn eru svo fjármagnstekjur (aðrar tekjur eru t.a.m. náms- og rannsóknarstyrkir og atvinnuleysisbætur). Segja má að þær taki að vaxa hjá einstaklingum á fertugsaldri, og haldist svo tiltölulega stöðugar fram eftir aldri. Fjármagnstekjur eru í heildina lægri en launatekjur og lífeyrir, en þær dreifast á mun færri hendur. Árið sem gögnin taka til (2016) þénaði eitt prósent tekjuhæstu hjóna (samskattaðra) 49% af öllum fjármagnstekjum samskattaðra, og 10% tekjuhæsti hluti samskattaðra þénaði 71,5% allra fjármagnstekna þess hóps. Því hefði takmarkaða þýðingu að skoða meðal-krónutölupphæð fjármagnstekna á mann.
Til frekari glöggvunar á skiptingu fjármagnstekna eftir aldri skulum við styðjast við hve stórt hlutfall af fjármagnstekjum fellur í skaut hvers aldurshóps (mynd 2).
Fyrst veitum við athygli hve óregluleg gögnin eru. Þessar miklu sveiflur milli aldursára endurspegla lítinn fjölda fjármagnseigenda, en einn einstaklingur sem hagnast um hundruði eða þúsundir milljóna hefur mikil áhrif fyrir hvert aldursár. Þá væri e.t.v. sanngjörn lýsing að fjármagnstekjur séu hlutfallslega lágar meðal hópa fram á miðjan fertugsaldur þar sem þær taka að vaxa fram á miðjan sextugsaldur. Hlutur aldursbila minnkar svo fram á tíræðisaldur. Mestar fjármagnstekjur Íslendinga falla þannig í skaut aðila sitthvorum megin við 57 ára aldur. Lækkun hlutdeildar í fjármagnstekjum fram á tíræðisaldur skýrist af fámennari hópum eins og sjá má á næstu mynd.
Hún sýnir hversu stórt hlutfall allra fjármagnstekna fellur að meðaltali í hlut einstaklinga á hverju aldursbili (mynd 3).
Sú mynd bendir til þess að fjármagnseign einstaklinga haldist almennt að mestu til æviloka. Gögnin sýna enda að arður af verðbréfum (þ.m.t. eigin rekstri) er lægri meðal eldri aldurshópanna, en vextir af áhættuminni bankainnistæðum þeim mun meiri. Við skoðum að lokum hlut aldurshópa í arðgreiðslum, sem endurspeglar að einhverju leyti völd í íslensku atvinnulífi (mynd 4).
Hlutur einstaklinga er mestur kringum 56-61 árs aldur, sem er bilið milli toppanna tveggja fyrir miðja mynd. Fram til 37 ára aldurs ná fjármagnstekjur á mann ekki fimmtungi af þeirri upphæð, og við 79 ára aldur hríðlækkar hlutur einstaklinga í arði af verðbréfum. Samræmist það almennum hugmyndum um aukinn sparnað, uppbyggingu fyrirtækja og auknum líkum á að tæmast arfur fram á fullorðinsár.
Samandregið eru megintekjur Íslendinga í formi launa fyrri hluta ævinnar, og lífeyris- og tryggingargreiðslna á efri árum. Mestar fjármagnstekjur falla í skaut fólks í kringum sextugt. Þær eru lægri hjá yngri hópum sem þéna minni fjármagnstekjur að meðaltali og lægri hjá eldri hópum þar sem þeir eru fámennari, en fjármagnstekjur hvers einstaklings haldast að meðaltali stöðugar fram á tíræðisaldur.
Nákvæm skipting hagsældarinnar milli kynslóða er þó auðvitað ekki stöðug og tíminn einn mun leiða í ljós hve mikið yngri kynslóðir munu auka við sinn hlut. Hvort hlut kynslóðanna hefur alltaf verið svona skipt er svo efni í aðra grein.