„Á árunum 2009–2018 missti að jafnaði 101 barn foreldri árlega, fæst árið 2015 þegar 89 börn misstu foreldri en flest árið 2010 eða 133 börn. Alls misstu 1.007 börn foreldri yfir tímabilið, 525 drengir og 482 stúlkur.“ Þetta kemur fram tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.
Hagstofan hefur tekið saman upplýsingar frá árinu 2009. „Alls létust 649 foreldrar barna á tímabilinu, þar af voru 448 feður og 201 móðir. Flestir feðra sem létust voru eldri en 49 ára, 172 talsins eða 38%. Næstflestir voru milli 40 og 49 ára, 140 feður eða 31% af heildarfjölda feðra. Flestar mæður sem létust voru á aldrinum 40–49 ára, 85 talsins eða um 42%. Næststærsti hópurinn var á aldrinum 30–39 ára, 56 mæður, tæplega 28%.“
Þá kemur fram í gögnum Hagstofunnar að á tímabilinu 2009–2018 hafi flestir foreldrar sem létust fallið frá af völdum illkynja æxlis eða 257, tæplega 40%. „Næstalgengast var að foreldri létist vegna ytri orsaka áverka og eitrana, tæplega 34% tilvika eða 218 manns. Tveir undirflokkar dauðsfalla af völdum ytri orsaka áverka og eitrana voru skoðaðir sérstaklega, annars vegar óhöpp og hins vegar sjálfsvíg og vísvitandi sjálfsskaði. Meirihluti foreldra sem létust af völdum ytri orsaka, létust af völdum sjálfsvígs og vísvitandi sjálfsskaða, alls 106 (48,6% af heildarfjölda foreldra sem lést af völdum ytri orsaka og 16,3% af heildarfjöldanum).“
Krabbameinsfélagið heldur málþing um rétt barna, stöðu þeirra og þarfir við fráfall foreldris í dag, mánudag klukkan 15.00 til 17.45. Málþingið fer fram í húsi Íslenskrar erfðagreiningar og ber yfirskriftina „Hvað verður um mig?”. Á málþinginu verða gögn Hagstofu kynnt en meðal þátttakenda í málþinginu eru Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Á málþinginu verða kynntar rannsóknir um upplifun barna eftir fráfall foreldris og hvernig nýta má þær upplýsingar sem fram komu til að skapa umgjörð fyrir fagfólk og alla sem standa að börnunum. Jafnframt verður greint frá rannsóknum á stöðu barna sem aðstandenda krabbameinssjúklinga. Fjallað verður um eigin rétt barnanna og þarfir fyrir stuðning og leiðsögn, skyldur og ábyrgð hins opinbera, tengsl fjölskyldu, samfélags og sjálfstæða þörf barna fyrir sorgarvinnslu og utanumhald allt til fullorðinsára.