Annar mannanna sem var handtekinn í tengslum við skotárásina í Mehamn í Finmörku í Noregi er bróðir hins látna.
Lögregla var kölluð til á staðinn um klukkan 5.30 í fyrrinótt. Maðurinn sem varð fyrir skotinu var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.
Maðurinn sem lét lífið eftir skotárásina hét Gísli Þór Þórarinsson. Hann var fertugur.
Norska blaðið Verdens Gang (VG) segir að árásin hafi átt sér stað í heimahúsi en ekki kemur fram hver var húsráðandi. Voru tveir menn handteknir vegna málsins.
Maðurinn sem er talinn hafa skotið hinn látna birti játningu og afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni skömmu eftir atvikið. Hann er 35 og var hálfbróðir hins látna.
Hinn, sem er grunaður um aðild að málinu, er 32 ára en hann neitar sök.
Mennirnir tveir koma til með að verða yfirheyrðir í dag. Báðir hafa stöðu grunaðs manns. Í Verdens Gang segir verjandi annars þeirra, Jens Bernhard Herstad að skjólstæðingur sinn neiti sök í málinu og segist ekki bera ábyrgð. Lögmaðurinn hyggst ræða við manninn í dag með aðstoð túlks.
Minningarathöfn var haldin um Gísla Þór í Mehamn-kirkju í gær hjá séra Mariu Dale sóknarpresti. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ríkir mikil sorg í Mehamn og eru íbúarnir í áfalli vegna málsins.
Fréttin hefur verið uppfærð.