Annar mannanna sem handtekinn var í kjölfar skotárásar, í Mehamn í Finnmörku, sem varð íslenskum mann á fertugsaldri að bana baðst fyrirgefningar í færslu á Facebook og segist ekki hafa ætlað sér að skjóta manninn. Þetta kemur fram í umfjöllun norska blaðsins Verdens Gang (VG).
Leinan Mathiesen, lögreglustjóri í Porsanger, segir við VG að lögregluyfirvöld vinni enn að rannsókn málsins. Því séu upplýsingar af skornum skammti. Lögreglan hefur staðfest að þau hafi séð færsluna en yfirvöld vilja ekki tjá sig um innihald hennar.
Staðarmiðilinn iFinnmark segir að í færslunni komi fram að maðurinn hafi ekki ætlað sér að hleypa af skoti.
Lögregla var kölluð til um klukkan 5.30 í í nótt. Maðurinn var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.