Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

„Við lifðum af og fyrir það erum við þakklátir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslenskur karlmaður og 15 ára sonur hans voru hætt komnir þegar þeim var byrlað ólyfjan og þeir rændir um hábjartan dag á Tenerife fyrir skemmstu. Þeir rönkuðu við sér lemstraðir og minnislausir við ruslagám nokkru síðar.

Mannlíf ræddi við manninn sem féllst á að segja sögu sína en óskaði þess að nöfn þeirra feðga kæmu ekki fram að tillitsemi við son hans. Maðurinn segir að um ósköp venjulegan dag hafi verið að ræða, þeir hafi verið að rölta í rólegheitunum heim af ströndinni þegar þeir ákváðu að tylla sér á matsölustað og fá sér hressingu. „Við gengum eftir götu sem heitir Veronicas en þar eru til dæmis matsölustaðir og skemmtistaðir,“ útskýrir maðurinn.

Feðgarnir stöldruðu við á matsölustað sem heitir Joyce og settust við borð á útisvæði staðarins og pöntuðu sér gosdrykki. Maðurinn segir að næstu staðir hafi til dæmis verið Subway og KFC, þarna hafi verið fólk á öllum aldri, niður í sjö ára börn, og þeim hafi því ekki þótt ástæða til að óttast. Ekkert hafi bent til annars en að þeir væru á öruggum stað. Það hafi þó breyst á augabragði.

„Þegar við höfðum fengið okkur sopa af drykkjunum þá munum við ekki eftir að hafa lagt glösin aftur niður og það verður bara allt svart í minninu. Við munum þó báðir eftir fjólubláu ljósi þar sem við liggjum á dýnum.“

„Við keyptum gleraugu af götusala beint fyrir framan staðinn. Síðan settumst við og fengum drykkina okkar,“ segir maðurinn og bætir við að skyndilega hafi allt orðið svart. „Þegar við höfðum fengið okkur sopa af drykkjunum þá munum við ekki eftir að hafa lagt glösin aftur niður og það verður bara allt svart í minninu. Við munum þó báðir eftir fjólubláu ljósi þar sem við liggjum á dýnum,“ útskýrir hann en hvorugur þeirra feðga gat hreyft legg eða lið meðan á þessu stóð. Maðurinn segir að eina hugsunin sem komst að hjá sér hafi verið hvar sonur hans væri. Hann hafi reynt að lyfta upp höndunum en ekki getað það. „Svo man ég að það kom einhver og sagði mér að halda áfram að sofa.“

Þegar feðgarnir komust til meðvitundar um fjórum klukkustundum seinna hafði þeim verið kastað eins og hverju öðru rusli á bak við ruslagám, búið að taka af þeim um 80 þúsund í peningum, greiðslukort sem þjófarnir náðu að taka 50 þúsund út af, síma og önnur verðmæti. Þeir voru mjög illa áttaðir þegar þeir rönkuðu við sér. „Strákurinn minn var með sár á líkamanum, rispaður í framan og bólginn á höndum eins og hann hafi eitthvað reynt að verjast,“ rifjar maðurinn upp og segir þá feðga í kjölfarið hafa farið á hótelið. Lögregla hafi verið kölluð á vettvang, en þeir feðgar hafi hins vegar verið svo ringlaðir þegar þeir tilkynntu árásina að lögreglan taldi að þeir væru í vímu og bað þá um að koma síðar í skýrslutöku.

„Lögreglan útskýrði fyrir okkur að okkur hefði verið byrlað eitur sem kallast burundanga og setti allt af stað til að finna ódæðismennina.“

„Við fórum þá á sjúkrahúsið í blóðtökur og myndatökur þar sem staðfest var að okkur hafði verið byrlað eitur. Starfsfólk sjúkrahússins leit málið alvarlegum augum og vildi í kjölfarið halda okkur í sólarhring. Við fórum því aftur á fund lögreglunnar sem tók málið einnig mjög alvarlega. Lögreglan útskýrði fyrir okkur að okkur hefði verið byrlað eitur sem kallast burundanga og setti allt af stað til að finna ódæðismennina. Þetta var umfangsmikil aðgerð, við sáum það,“ lýsir maðurinn hrærður. Hann bætir við að Sigvaldi Kaldalóns og Halla Birgisdóttir, fararstjórar hjá VITA-ferðaskrifstofu, hafi aðstoðað þá feðga í gegnum allt ferlið, útvegað túlk og veitt þeim góðan stuðning. „Við lifðum af og fyrir það erum við þakklátir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -