„Krafa Bæjarráðs er að Vegagerðin finni tafarlaust dýpkunarskip sem hefur burði til þess að opna Landeyjahöfn,“ segir í ályktun aukafundar bæjarráðs Vestmannaeyja sem haldinn var í gær vegna Landeyjarhafnar. Bæjarráð segir verktaka ábyrgan fyrir dýpkun hafnarinnar halda samfélaginu í gíslingu.
„Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa margoft ítrekað áhyggjur sínar af afkastagetu verktakans til dýpkunar. Við það bætist nú að þrátt fyrir fögur fyrirheit og fullyrðingar um metnað verktakans til þess að dýpka þegar færi gefst, er lítið um efndir. Staðan er með öllu ólíðandi fyrir íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum,“ segir í fundagerð bæjarráðs.
Bæjaryfirvöld í bænum krefjast aðgerða. „Að leitað verði út fyrir landsteinana að aðila sem getur sinnt verkinu og opnað höfnina án þess að það dragist langt fram á vorið. Ekki er boðlegt að dýpkunaraðili sem sinnir verkinu hafi hvorki tækjakost né metnað til þess og haldi þannig samfélaginu í Vestmannaeyjum í gíslingu. Ekki verður búið við ástandið lengur og er aðgerða þörf.“
Þá kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins að Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa þegar átt í samskiptum við aðila erlendis sem þau telja að geti sinnt verkefninu betur. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjarbæjar, segir við RÚV að bæjaryfirvöld vilji að Vegagerðin fari í að fá öflugri dýpkunarskip að utan. „Við teljum þetta fullreynt,“ segir bæjarstjóri. „Við viljum bara að Vegagerðin kanni það hvort að það sé ekki hægt að fá allavega fleiri aðila að þessu. Þetta gengur ekki eins og þetta er núna.“