„Ég hef sagt það áður – lokunarmálin í miðborginni eru löngu orðin þráhyggja og á ekkert skylt við almenna skynsemi” skrifaði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á Facebook í morgun. Þá skoðun tjáir Vigdís vegna fyrirhugaðar lokunnar hluta Laugavegs fyrir bifreiðaumferð.
Um leið lýsir Vigdís þeirri sýn sinni að hún sé hér talsmaður hins „stóra meirihluta” og „almennrar skynsemi“ borgarbúa í málinu, þvert á fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG sem mynda meirihluta í borgarstjórn. „Ég er mjög afdráttarlaus í þessu máli – ég stend með stóra meirihlutanum sem vill ekki lokun”. Þá nefnir Vigdís að við talningu í gær standi 20 verslunar- og þjónusturými auð í miðbænum.
Vigdís lýsir vonbrigðum yfir þeirri ákvörðun Morgunblaðsins að birta ekki viðtal sem blaðið tók við hana vegna málefna Laugavegs, þá með stærri umfjöllun blaðsins, um fyrirætlanir um lokun sem birtist í blaðinu í dag. „Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna – ég vil að fjölbreytileikinn í samgöngum sé sem mestur og eitt útilokar ekki annað”.