Óprúttnir aðilar beita sífellt flóknari og trúverðugri blekkingum til að svíkja fé út úr fyrirtækjum á Íslandi. Þeir verða sífellt þolinmóðari og verja miklum tíma í undirbúning.
Þeir reyna að komast yfir nöfn og netföng starfsfólks og brjótast jafnvel inn í tölvupóstkerfi, kortleggja pósthegðun, orðaval og setningaskipan sem eru dæmigerð fyrir þá starfsmenn sem þeir ætla að líkja eftir. Sérstaklega er leitað að tölvupóstum sem innihalda orð á borð við erlend millifærsla, swift, símgreiðsla, wire transfer, invoice, reikningur, deposit og þess háttar. Tímasetning slíkra pósta er greind nákvæmlega þ.e. hvaða daga þeir eru sendir, klukkan hvað, frá hverjum og til hverra.
Fleiri mál rata á borð lögreglu
Lögreglan á samstarf við erlend lögreglulið um tölvu- og nettengd brot á vettvangi Norðurlandanna, Evrópulögreglunnar (Europol) og Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI).
Ábendingar í gegnum Facebook-síðu lögreglu eru mjög gagnlegar þar sem lögregla fær án tafar upplýsingar um netglæpi í rauntíma. Að sama skapi nýtast samfélagsmiðlar lögreglu vel til að miðla upplýsingum, forvarnarfræðslu og viðvörunum um yfirstandandi netafbrot til almennings.
Gíslataka gagna er vel þekkt erlendis og dæmi eru um að Íslendingar og íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir slíkum árásum. „Business E-mail Compromise“ eru svik eins og lýst er hér fyrir ofan. Þar er oftast tilgreint í tölvupóstinum „sent from my iPhone”.
Með samvinnu lögreglu og fjármálaeftirlits (FME) hefur tekist að stöðva greiðslur sem hafa átt að fara á reikninga erlendis.
Kortanúmeraveiðar (e. Phishing) eru ein útbreiddasta tegund tölvu- og netglæpa sem berast lögreglu. Einstaklingar gefa upp kortaupplýsingar á vefsíðu í von um endurgreiðslu á þjónustu sem viðkomandi hefur verið tilkynnt í tölvupósti að hafi verið ofgreidd. Fjöldi Íslendinga hefur fallið í þá gildru síðustu ár. Dæmi er um tölvupóst af þessu tagi þar sem stofnað hefur verið falskt lén til að láta líta út fyrir að sendandi sé fyrirtæki eða lögaðili. Árásir af þessu tagi hafa valdið miklu tjóni.
Úr skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi frá 2017.