Í hverri viku útnefnir Mannlíf þá aðila sem hafa blómstrað í vikunni sem nú er að líða og þá sem hafa átt betri daga. Í síðarnefnda flokknum var valið nokkuð augljóst enda ekki á hverjum degi sem heilt flugfélag fer á hausinn. Fyrrnefnda flokkinn skipar maður sem tókst að bjarga verkföllum fyrir horn, í bili.
Góð vika – Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður SA
Eftir erfiða umfjöllun undanfarið fengu álitsgjafar uppreist æru í vikunni þegar Reykjavíkurborg leitaði til þriggja slíkra og borgaði þeim fyrir að auglýsa verkefnið „hverfið mitt“. En fegnastur allra hlýtur að vera Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sem tókst á elleftu stundu að koma í veg fyrir tveggja sólarhringa verkfall hjá starfsmönnum í ferðaþjónustu. Þótt forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafi ekki virkað sérlega spenntir fyrir því að aflýsa verkföllum á að setjast niður og gera alvöruatlögu að kjarasamningum.
Slæm vika – Skúli Mogensen, fyrrum forstjóri WOW air
Eftir margra mánaða baráttu þurfti Skúli Mogensen loksins að leggja árar í bát. WOW air er fallið. Vissulega gerði Skúli margháttuð mistök í rekstri sínum en hann verður ekki sakaður um að hafa hlaupist frá borði á ögurstundu. Hann barðist fram á síðustu stundu, lagði sínar persónulegar eignir að veði og tjónið fyrir hann persónulega er gríðarlegt. Ólíkt mörgum viðskiptamönnum sem létu sig hverfa þegar bankakerfið hrundi eins og það lagði sig, steig Skúli fram fyrir skjöldu, bað starfsfólk og farþega einlæglega fyrirgefningar og tók fulla ábyrgð á því hvernig fór.