Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Sýningin var opnuð í gær og nýr fugl Sigurjóns Pálssonar var frumsýndur.
„Við höfum alla tíð stutt íslenska hönnuði og lagt okkur fram um að hjálpa þeim við að koma verkum sínum á framfæri og í framleiðslu. Hluti af því er þátttaka í HönnunarMars og í ár viljum við vekja athygli á alþjóðlega viðurkenndri íslenskri hönnun, því oft gerum við okkur ekki grein fyrir því hversu víða íslensk hönnun berst,“ segir Eyjólfur Pálsson, stofnandi og eigandi Epal.
Sýningin í Epal var opnuð í gær og þar var nýr fugl eftir Sigurjón Pálsson frumsýndur, lunda sem framleiddur er af Normann Copenhagen.
„Það er mikill heiður að fá að frumsýna lundan, sem margir hafa beðið lengi eftir,“ segir Eyjólfur.
Þeir sem sýna í Epal á HönnunarMars eru Anna Þórunn Hauksdóttir, Bryndís Bolladóttir, Dögg Guðmundsdóttir, Guðmundur Lúðvík, Heiðdís Halla Bjarnadóttir, Hlynur Atlason, Kolbrún Leósdóttir & Leó Jóhannsson, iHanna home, Morra, Sigurjón Pálsson, Hring eftir hring, Pastelpaper, S.Stefánsson & Co. og Sigga Heimis.
Sígild hönnun er ekki bara eitthvað snobb heldur vönduð vara sem stenst tímans tönn.
Eyjólfur hvetur áhugasama að leggja leið sína á sýninguna og sjá hvað er að gerast í hönnunarheiminum. „Sígild hönnun er ekki bara eitthvað snobb heldur vönduð vara sem stenst tímans tönn og gengur jafnvel frá einum ættlið til þess næsta. Í nútímasamfélaginu höfum við vanið okkur á að kaupa lélegari vöru sem síðan er reglulega hent út fyrir aðra, en það er auðvitað bæði umhverfisvænna og hagkvæmara til lengri tíma litið að fjárfesta í gæðum.“