Alls voru 370 verk innsend til FÍT-verðlaunanna 2019. Innsend verk í keppnina hafa aldrei verið fleiri en verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarbíói í kvöld. Öll verðlaunuð og viðurkennd verk verða svo til sýnis í Hafnarhúsinu í kringum HönnunarMars.
„Tilnefningum fjölgar töluvert á milli ára og ljóst að mikil gróska og kraftur er í faginu,“ segir Kristín Eva Ólafsdóttir, formaður Félags íslenskra teiknara. „Keppnin nýtur sívaxandi vinsælda og virðingar meðal hönnuða og félagsmanna FÍT, enda skipta tilnefningarnar máli því öll tilnefnd verkefni öðlast þátttökurétt í Evrópuverðlunum fagfélega ADC*E (Art Directors Club of Europe).“
Keppnin nýtur sívaxandi vinsælda og virðingar meðal hönnuða og félagsmanna FÍT.
Tilnefnt er í 21 flokki og ná þeir yfir helstu undirflokka grafískrar hönnunar. Má þar nefna skjágrafík, vefhönnun, prentverk, hönnun auglýsinga og myndlýsingar. Að auki eru veitt sérstök verðlaun til þess verks sem þótti skara fram úr á meðal allra verðlaunaðra verka.
Formenn dómnefnda í ár voru Arnar Ólafsson (skjáhönnun), Atli Hilmarsson (mörkun), Hildur Siguðardóttir (prent) og Hjörvar Harðarsson (auglýsingar).
Félag íslenskra teiknara stendur fyrir veglegri samsýningu á HönnunarMars sem sýnd verður í porti Listasafns Reykjavíkur– Hafnarhúsi, þriðja árið í röð og hefur viðburðurinn verið einn sá mest sótti yfir hátíðna undanfarin ár en í ár er búist við því að yfir 5.000 manns leggi leið sína í Hafnarhúsið. Viðburðurinn markar upphaf HönnunarMars sem verður haldinn 28. til 31. Mars.
Becky Forsythe verður listrænn stjórnandi sýningar FÍT 2019 í Hafnarhúsinu en hún starfar sem sýningarstjóri og rithöfundur.