Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Kröfuhafar WOW skoða lagalega stöðu sína

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stjórnendur WOW gera nú lokatilraun í samvinnu við kröfuhafa til þess að bjarga rekstri fyrirtækisins. Samgöngustofa hefur fyrirtækið undir nánu eftirliti og tvær af 11 flugvélum WOW hafa nú verið kyrrsettar, önnur í Montreal og sú síðari á Kúbu.

Fyrirtækið rær nú lífróður og freista stjórnendur flugfélagsins þess að bjarga því frá gjaldþroti. Björgunaraðgerð WOW felst meðal annars í því að kröfuhafar fyrirtækisins sem komu inn í skuldabréfaútboði síðastliðið haust breyti skuldum sínum í hlutafé. Hinsvegar þarf að tryggja nægt lausafé til að halda rekstrinum gangandi, greiða starfsfólki laun nú um mánaðarmótin og koma í veg fyrir að fleiri flugvélar fyrirtækisins verði kyrrsettar.

Voru skuldabréfaeigendur blekktir?

Á sama tíma og kröfuhafar WOW hafa örlög fyrirtækins í hendi sér, þar sem skuldum kann að vera breytt í hlutafé, þá skoða aðilar meðal kröfuhafa flugfélagsins nú lagalega stöðu sína, samkvæmt heimildum Mannlífs. Sænska fjármálafyrirtækið Pereto var umsjónaraðili skuldabréfaútboðs fyrirtækisins á haustmánuðum 2018, þar sem um 50 milljónum evra var safnað til að tryggja rekstrarfé til næstu mánaða. Vextirnir sem WOW samþykkti að greiða af skuldabréfunum voru þeir hæstu sem nokkurt flugfélag í Evrópu hefur greitt undanfarin misseri, níu prósent ofan á þriggja mánaða Euribor vexti, sem endurspeglar veika fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Samkvæmt heimildum Mannlífs þá skoða kröfuhafar nú lagalegu stöðu sína í málinu þar sem upplýsingagjöf fyrirtækisins og umsjónaraðila útboðs skuldabréfanna liggur til grundvallar. Ónefndur kröfuhafi sem Mannlíf ræddi við segir að upplýsingar í umræddu útboði kunni að gefa ranga mynd af fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins. Hún hafi í raun verið mun verri en gefið var til kynna. Þá hafi skuldabréfaútboðið ekki skilað þeim ávinningi sem stefnt var að, sem var að tryggja lausafé til rekstur fyrirtækisins. Samkvæmt heimildum Mannlífs var lungað af þeim 50 milljónum evra sem tilkynnt var í útgáfu skuldabréfa endurfjármögnun eldri skulda. Telja má með öllu óvíst hvort einhverjar endurheimtur verða á þeim 50 milljónum evra sem fjárfestar lögðu fram við útgáfu skuldabréfa fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Umræddur skuldabréfaflokkur er skráður í kauphöllina í Svíþjóð.  Þó herma heimildir Mannlífs að Skúli Mogensen forstjóri og stærsti eigandi WOW hafi tekið persónulegt lán og lagt þá fjármuni inn í skuldabréfaútgáfuna á þessum tíma og þurft að leggja heimili sitt og jörð í Hvalfirði að veði.

Eigendur skuldabréfa WOW horfa til þess að upplýsingagjöf hafi ekki verið fullnægjandi og ekki gefið rétta mynd af rekstri fyrirtækisins. Rekstarvandræði WOW sýni það enn frekar og sú staðreynd að stjórnendur Icelandair skoðaði rekstur fyrirtækisins tvíveigis og taldi stöðuna verri en þeir höfðu talið. Ytri skilyrði á alþjóðum markaði kunna vissulega að hafa þarna áhrif einnig. Þrátt fyrir að lagalega staða gagnvart félaginu og stjórnendum séu í skoðun og verði áfram metið þá segja heimildarmenn Mannlífs að forgangsatriði kröfuhafa sé að freista þess að halda rekstrinum lifandi áfram, þannig séu meiri líkur á endurheimtum skuldabréfa.

Ef til málsóknar kæmi myndu sú málsókn væntanlega snúa að umsjónaraðila útboðsins og stjórnendum fyrirtækisins ef tekst að sýna fram á að upplýsingagjöf fyrirtækisins hafi í raun verið röng eða villandi. Eigendur skuldabréfanna standa nú frammi fyrir tveimur kostum, annars vegar að félagið fari í þrot og treysta á að endurheimta fjármunina úr þrotabúinu eða að breyta kröfunum í hlutafé og treysta á að það takist að koma félaginu á flot.

- Auglýsing -

Tap WOW nam 22 milljörðum króna á síðasta ári og þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnenda WOW má telja að bókunarstaða fyrirtækisins standi höllum fæti og óvissa um rekstur fyrirtækisins geti ekki staðið í marga daga til viðbótar.

Arctica Finance í björgunarleiðangri

Arctica Finance sem kom að skuldabréfaútboði í haust, ásamt Pereto í Svíþjóð, freistar þess nú á nýjan leik að fá fjárfesta að fyrirtækinu og bjarga því frá þroti. Talið er að það þurfi fimm milljarða króna til að tryggja rekstur fyrirtækisins og skuldbreyting kröfuhfa í hlutafé sé lykill í því samhengi. Áhugavert verður að sjá hvort þær fjárhagsupplýsingar sem Artica Finance veitir fjárfestum nú, gefi skýrari mynd af rekstri WOW en þær upplýsingar sem áður voru veittar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -