Kjör öryrkja hafa oftar en ekki setið eftir á meðan að kjör annarra hafa batnað. Ítarlega fréttaskýringu um málið er að finna lesa á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Samhliða því að greiðslur til öryrkja hafa ekki hækkað í samræmi við almenna launaþróun þá hefur átt sér stað þróun á íslenskum húsnæðismarkaði sem hefur reynst þessum hópi afar óhagstæð. Birtingarmyndir þess eru nokkrar. Til dæmis hefur leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldast á rúmlega átta árum.
Á síðustu tveimur árum hefur það hækkað um meira en 30 prósent. Í könnun sem gerð var fyrir Íbúðalánasjóð í fyrra kom fram að þriðji hver leigjandi borgi meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir þeirra geta safnað sér sparifé vegna hás leigukostnaðar. Einungis 14 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar. Þeir sem eru líklegastir til að vera á leigumarkaði eru fólk í lágtekjuhópum, eins og t.d. öryrkjar.
Staðan er ekkert mikið betri á kaupendamarkaði. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði til að mynda um 105 prósent í krónum talið frá byrjun árs 2011 og fram í desember 2018, eða á átta árum. Það hefur gert það að verkum að til þess að kaupa sér fasteign þarf nú helmingi fleiri krónur í útborgun en áður, sem erfitt er að safna sér þegar tekjurnar duga vart fyrir framfærslu.