Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Með illu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst

Ég hef átt það til að vera maður hinna vondu ákvarðanna og nýlega rifjaðist upp fyrir mér ein slík sem ég tók fyrir rúmum áratug. Ákvörðunin var að fara á allsvakalegt djamm kvöldið áður en ég átti að fara á lúðrasveitartónleika hjá dóttur minni. Það hefði kannski ekki þurft að vera tiltökumál fyrir utan að umræddir tónleikar voru hjá sameinuðum öllum lúðrasveitum Reykjavíkur. Það felur í sér helling af tréblásturshljóðfærum, fullt af flautum, fleiri lúðra, mikið af trommum og Háskólabíó.

Eftir að hafa komið dóttur minni á staðinn á réttum tíma, heimsótti ég bensínstöðina handan Bændahallarinnar og fékk mér roast beef-samloku og malt, íslenskum landbúnaði og matvælaiðnaði til dýrðar, í von um að friða Jack Daniels og aðra djölfa sem höfðu læst sig inni í bæði höfði mínu og iðrum. Það tókst ekki.

Ég skögraði því yfir í Háskólabíó, kom mér fyrir aftarlega í salnum, reyndi að halda smekklegri fjarlægð við aðra foreldra og áttaði mig á að ég var staddur á Mýrdalssandi meistara Bubba. „Með taugarnar þandar, titrandi andar / kjökrandi skríður, skjálfandi bíður / og tími líður.“

En svo kom að því að blessuð börnin byrjuðu að blása og berja. Það var skelfileg lífsreynsla, svo ekki sé meira sagt, en viti menn – það er satt sem sagt er: Með illu skal illt út reka. Eftir að syndir gærkvöldsins höfðu sturtast með offorsi út um hverja einustu svitaholu líkamans í leit að flóttaleið frá listsköpun barnanna fór að rjátla af mér. Þetta tók furðu skamma stund og ég er ekki frá því að ég hafi nánast notið seinnihluta tónleikanna. Það kom því aldrei til greina að láta sér þetta að kenningu verða.

Glaðbeittur en svitastorkinn fór ég með dóttur minni eftir tónleikana og splæsti í ís til þess að verðlauna okkur bæði og hugsaði með mér: Það er þá svona að vera íslenskur ráðherra.

 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -