Leiðari
Sú ákvörðun Sigríðar Andersen að segja af sér embætti dómsmálaráðherra, hvort sem það var að hennar frumkvæði eða henni var gert að hætta, var bæði rétt og óumflýjanleg. Það lá í loftinu að VG myndi ekki þola að leggjast í aðra málsvörn fyrir Sigríði á þessum tímapunkti því nógu frústreraðir voru kjósendur flokksins fyrir.
Fæstir þeirra sem kusu flokkinn voru að kalla eftir stórfelldri lækkun veiðigjalda, áframhaldandi hvalveiðum til næstu fimm ára, mengandi laxeldi í fjörðum Íslands, hertum útlendingalögum eða innleggi í kjaraviðræður sem á engan hátt hróflar við þeim tekjuhæstu. Önnur umferð í málsvörn fyrir dómsmálaráðherra hefði einfaldlega tætt VG inn að beini.
Stjórnarkreppa, nýjar kosningar eða hvers kyns pólitísk óvissa er það síðasta sem þjóðin þarf á að halda ofan í verkföll, loðnubrest, mögulegt gjaldþrot flugfélags, Brexit-óvissu og svo mætti lengi telja. Staðan bauð einfaldlega ekki upp á það og nóg er óvissan fyrir með heilt dómsstig í uppnámi.
Það er óumdeilt að Sigríður hafði, lögum samkvæmt, rétt til að víkja frá niðurstöðu dómnefndarinnar sem hafði lagt fram lista yfir 15 hæfustu umsækjendurna og bera hann undir þingið. Það var hins vegar aðferðafræðin sem hún notaðist við og rökstuðningurinn sem hún veitti án nokkurra gagna sem studdu hennar mál, sem hélt ekki vatni. Þetta hefur Hæstiréttur staðfest. Breytingarnar sem Sigríður gerði á listanum litu þess vegna út eins og geðþóttaákvörðun sem er afleit afstaða þegar koma á heilu dómsstigi á laggirnar.
Afleiðingarnar eru þær að ríkið hefur þegar þurft að greiða milljónir í bætur, hirting frammi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og ófyrirséður kostnaður við að koma skikki á Landsrétt að nýju. Svo ekki sé minnst á afleiðingarnar fyrir Sigríði persónulega.
Íslenskir stjórnmálamenn hafa alltaf átt erfitt með að viðurkenna eigin mistök og flokksfélaga sinna. Viðbrögð forystumanna Sjálfstæðisflokksins voru þess vegna eftir bókinni, að kenna einhverjum öðrum um, í þessu tilviki dómaranum. Sem er í sjálfu sér alveg lögmæt afstaða, dómar og dómstólar þeirra eru ekki yfir gagnrýni hafnir.
En það er ekki laust við að það hafi farið um mann hrollur þegar forystumenn Sjálfstæðisflokksins dustuðu rykið af gömlu góðu umsáturskenningunni og töluðu eins og Mannréttindadómstóll Evrópu væri í einhvers konar leiðangri gegn Íslandi. Þannig sagðist Sigríður ekki ætla að láta það átölulaust að dómstólar, innlendir sem erlendir, væru notaðir í pólitískum tilgangi á meðan Bjarni vísaði í „lifandi umræðu“ í Bretlandi um að segja landið frá Mannréttindadómstólnum.
Umræddur dómstóll hefur reynst einhver mikilvægasti öryggisventill hins almenna borgara gagnvart ríkisvaldinu og þaðan hafa komið margar af helstu réttarbótum í íslensku samfélagi. Það að Mannréttindadómstóllinn hafi kostað Sjálfstæðisflokkinn tímabundin vandræði réttlætir engan veginn jafnofsafengin viðbrögð sem þessi.
Þessi viðbrögð eru dapurleg í ljósi þess að bara í síðustu viku sýndi íslenska ríkisstjórnin, undir forystu ráðherra Sjálfstæðisflokksins, aðdáunarverða framgöngu í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem gróf og ítrekuð mannréttindabrot Sádi Arabíu voru fordæmd. Við getum einfaldlega ekki ákveðið upp á okkar einsdæmi hvaða mannréttindi henta okkur.