Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, ætlar að stíga tímabundið til hliðar úr embætti dómsmálaráðherra í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu gegn íslenska ríkinu. Hún leggur til að þeirri niðurstöðu verði áfrýjað til yfirréttar og hyggst snúa aftur þegar niðurstaða er komin í málið.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Sigríður boðaði til í dómsmálaráðuneytinu. Sigríður kvaðst ekki hafa rætt við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, fyrir fundinn en hún mun kynna henni ákvörðun sína á ríkisstjórnarfundi sem hefst klukkan 16.
Aftur á móti sagðist Sigríður hafa rætt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins áður en hún kynnti ákvörðun sína.
Sigríður lýsti því yfir að hún væri ósammála niðurstöðum dómsins en hún hafi skynjað að hennar persóna gæti truflað þá vinnu sem þarf að ráðast í. Ekki liggur fyrir hversu lengi Sigríður verður í leyfi. Á fundinum talaði hún um að stíga til hliðar næstu vikurnar en þegar hún var spurð nánar út í það eftir fundinn sagði Sigríður að það yrði að koma í ljós.
Skömmu eftir fundinn staðfesti Katrín Jakobsdóttir að dóminum verði áfrýjað til yfirréttar. Hún sagðist styðja ákvörðun Sigríðar að stíga til hliðar til að tryggja vinnufrið. Aðspurð hvort Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórn sagði Katrín ótímabært að svara því.