Sjötta árið í röð framkvæmdi Kjarninn úttekt á því hver kynjahlutföll séu á meðal þeirra sem stýra peningum á Íslandi. Sjötta árið í röð er niðurstaðan nánast sú sama: Karlar stýra nær öllum peningum á Íslandi. Og halda þar með um valdaþræðina.
Víða annars staðar í áhrifastöðum á Íslandi er enn aðeins í land með að ná jafnri stöðu kynjanna. Í ríkisstjórn er kynjahlutfallið til að mynda líka körlum í hag. Þar sitja sex karlar og fimm konur. Forsætisráðherra er hins vegar konan Katrín Jakobsdóttir. Það er í annað sinn í lýðveldissögunni sem kona situr í því embætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra 2009-2013.
Þá er seðlabankastjóri karl en sú breyting varð á í fyrra að annar aðstoðarseðlabankastjórinn er nú kona, þegar Rannveig Sigurðardóttir hagfræðingur var skipuð í stöðuna. Auk þess er forstjóri Fjármálaeftirlitsins konan Unnur Gunnarsdóttir.
Á Alþingi eru 24 konur. Þær dreifast ójafnt á flokka. Miðflokkurinn, nú stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, samanstendur til að mynda af átta körlum og einni konu. Hjá Sjálfstæðisflokknum eru tólf karlar og fjórar konur. Hjá Pírötum eru karlarnir fjórir en konurnar tvær og hjá Samfylkingu eru karlarnir fjórir en konurnar þrjár. Kynjahlutfallið í tveimur minnstu þingflokkunum, hjá Viðreisn og Flokki fólksins sem samanlagt eru með sex þingmenn, er jafnt.
Einungis tveir þingflokkar eru með fleiri konur innanborðs en karla: annars vegar Vinstri græn, þar sem konurnar eru sex og karlarnir fimm, og hins vegar Framsóknarflokkurinn, þar sem konurnar eru fimm en karlarnir þrír. Allir karlarnir þrír hjá Framsóknarflokknum eru þó í mjög áhrifamiklum stöðum: tveir eru ráðherrar og sá þriðji formaður fjárlaganefndar, áhrifamestu þingnefndar Alþingis.
Ítarlega var fjallað um málið á Kjarnanum og í 9. tölublaði Mannlífs á föstudaginn.
Sjá einnig: Þar sem peningar og völd eru til staðar er konum ekki hleypt að