Hvarf Jóns Þrastar Jónssonar fyrir tæpum þremur vikum, snertir líf fjölmargra einstaklinga með áþreifanlegum hætti. Á meðal þeirra sem hafa þungar áhyggjur af afdrifum Jóns Þrastar er barnsmóðir hans, Nína Hildur Oddsdóttir. Saman eiga þau tvær stúlkur, sú eldri fimmtán ára en yngri rétt tæplega tólf ára.
Nína segir að þær séu vissulega orðnar það gamlar að þær skilji eins vel og hægt er hvað er í gangi og því sé það ákveðið forgangsverkefni að reyna að halda sem allra best utan um þær á þessum erfiðu tímum.
En það er rétt að það komi fram að samband Jóns við börnin hefur alla tíð verið ákaflega gott og eins okkar vinátta sem hefur alla tíð haldist góð.
Aðspurð segir Nína að þau Jón hafi verið ung að árum þegar þau felldu hugi saman. „Við vorum bara unglingar þegar við kynntumst. Vorum saman í heil fjórtán ár, giftum okkur og eignuðumst okkar yndislegu dætur en svo lauk þeim tíma eins og gengur og gerist. En það er rétt að það komi fram að samband Jóns við börnin hefur alla tíð verið ákaflega gott og eins okkar vinátta sem hefur alla tíð haldist góð. Það hefur í raun löngum verið umtalað hvað við Jón höfum alltaf verið og erum enn góðir vinir og það er mikils virði.“
Algerlega úr karakter
Nína segir að eins og staðan sé í dag séu hún, börnin og fjölskyldan öll í miklu áfalli yfir því sem er að gerast. „Við höfum ekki minnstu hugmynd hvað hefur getað gerst og ég er mjög sammála fjölskyldu hans um að það er algjörlega út úr karakakter fyrir hann að hverfa með þessum hætti. Jón Þröstur hefur alltaf staðið sig gagnvart börnunum. Alltaf verið í reglulegu og góðu sambandi við stelpurnar, verið með þær hjá sér, farið með þær í ferðalög og við höfum haldið afmæli saman og þannig mætti áfram telja.“
Nína leggur áherslu á að Jón sé rólyndur að eðlisfari og því ekki inni í myndinni að hann hafi rokið í burtu eða brugðist við einhverju af hvatvísi. „Núna er hugur minn og alls míns fólks hjá Jóni og hans nánustu og staðan er sú að við verðum að fá einhver svör. Fyrr munum við ekki linna látum.“
Ítarlega er fjallað um málið í 9. tölublaði Mannlífs.