Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Söngvakeppni Sjónvarpsins: Alls ekki útséð með úrslitin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Úrslit í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2018 munu ráðast annað kvöld, laugardaginn 2. mars, þegar þjóðin velur eitt lag sem fulltrúa sinn í Eurovision-söngvakeppninni sem fer fram í Tel Aviv í maí. Álitsgjafar Mannlífs telja flestir sveitina Hatari nokkuð sigurstranglega en segja samkeppnina þó harða. Í raun geti allt gerst á lokakvöldinu.

„Fyrir viku hefði ég sagt Hatari, alveg án þess að hika“

Svanhildur Hólm Valsdóttir, áhugakona um Eurovision.

Besta íslenska lagið í Söngvakeppninni í ár?

„Það fer eftir því hvaða mælikvarða maður notar. Ef maður notar stuðkvarðann er það Hatari, ef maður notar límist-á-heilann-kvarðann þá er það Kristina Bærendsen, og ef maður notar líklegast til að verða öskursungið í partíum er það Friðrik Ómar. Tara er mjög flott og vinsælust hjá yngstu dótturinni og vinkonum hennar, en Hera verður helst út undan, þótt hún syngi vel eins og alltaf og lagið sé fallegt.“

Ég held að bæði Hatari og Friðrik Ómar gætu komið okkur upp úr undankeppninni.

 Sigurstranglegasta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins?

„Fyrir viku hefði ég sagt Hatari, alveg án þess að hika. Einfaldlega vegna þess að þeir hafa verið áberandi og eru með mjög töff lag. Mér finnst komin örlítil þreyta gagnvart atriðinu á síðustu dögum og það er alveg mögulegt að þjóðin hafi ekki jafnað sig á Silvíu Nótt og nenni þess vegna ekki að senda einhvern gjörning í Eurovision. Það gæti sem sagt unnið gegn þeim. En ef maður horfir til þess að krakkar eru sennilega duglegastir að kjósa, og þeir muna fæstir eftir Silvíu-ævintýrinu, held ég að ég haldi mig við Hatara.“

 Hvaða íslenska lag á mesta möguleika á því að ná langt í Eurovision?

„Ég held að bæði Hatari og Friðrik Ómar gætu komið okkur upp úr undankeppninni. Eða ég vona það að minnsta kosti – það er ekki hægt að klúðra þessu frábæra partítækifæri ár eftir ár. Ég set bara traust mitt á þá flytjendur sem fara út; að þeir syngi eins og þeir eigi lífið að leysa og sjái til þess að við fáum loksins almennileg Eurovision-partí út um allt land.“

- Auglýsing -

„Maður veit svo sem aldrei hvað gerist í þessu fríksjói“

Gunnar Lárus Hjálmarsson, a.k.a. doktor Gunni, tónlistarmaður.

Besta íslenska lagið í Söngvakeppninni í ár?

„Hatrið mun sigra. Ég verð svo reyndar að nota tækifærið og koma því á framfæri að Til hamingju Ísland með Silvíu Nótt er langbesta lagið sem Íslendingar hafa nokkurn tímann sent í keppnina. En því miður sýndi Evrópa yfirþyrmandi smekkleysi með því að hafna því meistaraverki.“

Sigurstranglegasta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins?

- Auglýsing -

„Það eru eiginlega bara tveir möguleikar í boði: Hatari og svo öll hin lögin. Hatari er eitthvað nýtt og ferskt á meðan restin er svipuð samsuða og við höfum ótal sinnum séð í keppninni. Ég ætla að vera bjartsýnn og veðja á að þjóðin sé fersk og velji Hatara áfram.“

Maður veit svo sem aldrei hvað gerist í þessu fríksjói sem Eurovision.

Hvaða íslenska lag á mesta möguleika á því að ná langt í Eurovision?

„Maður veit svo sem aldrei hvað gerist í þessu fríksjói sem Eurovision er, hvaða lag er sigurstranglegt, en Hatari mun í það minnsta vekja athygli í Ísrael og jafnvel komast í úrslitasjóið. Það yrði þá eitthvað nýtt eftir niðurlæginguna síðustu ár. Þeirra hómóerótíska bdsm-popp gæti fleytt þeim í topp 5, en ég ætla samt ekki að setja pening á það.“

Búin að panta leðurólar og latex á Netinu

Kristín H. Kristjánsdóttir, blaðamaður á wiwibloggs og í ritstjórn FÁSES.

Besta íslenska lagið í Söngvakeppninni í ár?

„Að öllum öðrum ólöstuðum finnst mér „Hatrið mun sigra“ vera besta lagið. Það er ferskt og öðruvísi og fangar athygli manns strax. Hatari er bara svo mikil vítamínsprauta. Ég er þegar búin að panta fullt af leðurólum og latexi á Netinu og er að safna mér fyrir gimpi.“

Sigurstranglegasta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins?

„Ég spái því að valið muni á endanum standa á milli Hatara og Friðriks Ómars. En hvernig úrslitin verða, er rosa erfitt að segja. Ætla samt að vera ofursvöl og segja að Hatari hafi það til Tel Aviv.“

Hvaða íslenska lag á mesta möguleika á því að ná langt í Eurovision?

„Hatari alla leið. Nei, er ekki á launum hjá þeim, ég sver það! Sveitin mun koma okkur upp úr forkeppninni í Eurovision og mögulega í topp 10. Þeir eru nú þegar búnir að sigra hjörtu harðkjarna aðdáenda. Pælið í því hvað gerist þegar Hatrið sigrar hinn almenna áhorfanda.“

Allar líkur á að lagið nái allt að toppnum

Reynir Þór Eggertsson, lektor í íslensku við Helsinki-háskóla og Euro-nörd.

Besta íslenska lagið í Söngvakeppninni Sjónvarspsins í ár?

„Eftirlætislagið mitt í keppninni í ár var Helgi með Heiðrúnu Önnu, kom mér í verulega gott skap og öðruvísi texti. Af lögunum í úrslitunum er ég persónulega hrifnastur af lagi Heru Bjarkar, sér í lagi eftir flutninginn í undankeppninni. Maður heyrði og skildi hverja tilfinningu sem hún hefur verið að berjast við. Stórkostlegur söngur og  vel sviðsett. Hatrið mun sigra er líka mjög gott, viðlagið heillar mig gjörsamlega og gerir það að verkum að lagið nær til mín.“

Hatrið mun sigra hlýtur að teljast sigurstrangasta lagið.

Sigurstranglegasta lagið í Söngvakeppni Sjónvarpsins?

„Hatrið mun sigra hlýtur að teljast sigurstrangasta lagið, að minnsta kosti miðað við alla umræðu, hvort sem er á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum. Það eina sem virðist geta komið í veg fyrir sigur þess er að andstæðingunum takist að sameinast gegn þeim í einvíginu. Hvert hitt lagið í einvíginu verður er erfiðara að spá, öll hin fjögur lögin eiga þar séns, nema kannske helst Mama Said. Ef Hatari vinnur ekki, verður það líklega Friðrik Ómar.“

Hvaða íslenska lag á mesta möguleika á því að ná langt í Eurovision?

„Bæði lagið Hatrið mun sigra og flytjendurnir Hatari skera sig verulega úr og eiga því möguleika á heilmikilli athygli fyrir keppnina í vor. Lagið er sterkt, viðlagið fallegt og ég tel í raun allar líkur á að það komist í úrslit og nái allt að toppnum. Hera Björk og Friðrik Ómar eru frábærir söngvarar og gætu auðvitað skinið í gegn í vor. Fighting for Love er gott lag, en Tara Mobee þarf að flytja lagið mun betur en hún gerði í undankeppninni. Kristina Skoubo er góð söngkona, en ég held að lagið eigi ekki séns.“

Mynd / Magnús Andersen fyrir Grapevine

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -