Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Ragnar Þór Ingólfsson og Kristján Þór Júlíusson sem komust á lista.
Góð vika
Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, reis á afturlappirnar þegar Almenna leigufélagið tilkynnti viðskiptavinum sínum um umtalsverðar hækkanir á leigusamningum sínum og gaf þeim um leið einungis örfáa daga í umhugsunarfrest. Hann virtist aðeins misreikna sig þegar hann hótaði að taka fjóra milljarða VR úr eignastýringu hjá Kviku þótt það sé í raun Gamma sem á Almenna leigufélagið. En barátta Ragnars var ekki til einskis því fyrst baðst leigufélagið afsökunar á knöppum umhugsunarfresti og kenndi nýjum starfsmanni um áður en greint var frá samkomulagi við VR um að draga hækkanirnar til baka. Ragnar 1 – hagnaðardrifin leigufélög 0.
Sjá einnig: Hafa efni á verkföllum
Slæm vika
Kristján Þór Júlíusson
Vigdísi Hauksdóttur virðist vera komin í stríð við borgarkerfið eins og það leggur sig og óskiljanleg ummæli um vinnufrið í ráðhúsinu voru í besta falli vandræðaleg. Það var þó ekki nærri jafnvandræðalegt og þegar í ljós kom að Kristján Þór Júlíusson breytti reglugerð um vinnslu og eftirlit með hvalaafurðum einungis 10 dögum eftir að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., sendi honum tölvupóst og bað hann um að gera það. Þetta var upplýst skömmu eftir að Kristján Þór hafði troðið hvalveiðum til næstu fimm ára ofan í kokið á umhverfissinnaða samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Hér verður ekki sagt að Kristján Þór sé strengjabrúða Kristjáns Loftssonar en samt …
Sjá einnig: „Það er ekki lengur vinnufriður – það hafa allir vinnufrið!“