Það tók nokkurn tíma að fá viðbrögð frá þeim sem bera ábyrgð á rekstri Landsbankans eftir að greint var frá hinum miklu launahækkunum bankastjóra hans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, með birtingu ársreiknings í lok síðustu viku.
Bankaráð Landsbankans sem er ábyrgð fyrir því að skammta bankastjóranum laun, sendi þó frá sér tilkynningu á mánudag þar sem það sagði að hækkunin væri í samræmi við starfskjarastefnu bankans. Laun hennar hafi verið lægri en laun æðstu stjórnenda hjá öðrum stórum fjármálafyrirtækjum og því hefði þurft að hækka þau til að starfskjör Lilju Bjarkar væru samkeppnishæf.
Á þriðjudag komu svo fram viðbrögð Bankasýslu ríkisins. Í þeim fólst að senda stjórnum bæði Landsbankans og Íslandsbanka bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum um launamál bankastjóranna og þess óskað að svör berist fyrir 19. febrúar næstkomandi.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sendi einnig bréf sama dag þar sem óskað var eftir „því að stjórnir og Bankasýsla ríkisins upplýsi fjármála- og efnahagsráðuneytið um það hvernig brugðist hafi verið við þeim tilmælunum sem beint var til þeirra með bréfi ráðuneytisins frá janúar 2017, sem síðar var ítrekað, og í hvaða mæli þau hafi verið höfð til hliðsjónar við ákvörðun launa framkvæmdastjóra. Hafi stjórnir ákvarðað framkvæmdastjórum launahækkanir umfram almenna launaþróun, er óskað eftir því að þær færi rök fyrir þeim ákvörðunum með tilvísunar til eigandastefnu.“
Bjarni sagðist „óhress“ með launahækkun forstjóra Landsbankans í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 á miðvikudag og að það væri ekki annað að sjá en að tilmælin sem send voru í upphafi árs 2017 hefðu verið höfð að engu.
Umfjöllun Kjarnans má lesa í heild sinni á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.