Skoðun
Eftir / Hrefnu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Heimilis og skóla
Notkun snjalltækja og skjátími barna og unglinga eru vinsælt umræðuefni og skyldi engan undra þar sem við erum þátttakendur í byltingu, jafnvel án þess að átta okkur á því. Uppeldið fer nú fram á nýjum sviðum og foreldrar og menntastofnanir reyna að fóta sig á sviði tækninnar. Hvað er rétt og hvað er rangt? Í raun eru svörin ekki klippt og skorin en byggja þó í grunninn á heilbrigðri skynsemi. Hvað verjum við tímanum okkar í? Í hvað fara þessar 24 stundir?
Enn skortir langtímarannsóknir á áhrifum tækninnar á uppvöxt barna og velferð sem og heilastarfsemi barna og fullorðinna. Sífellt safnast þó í sarpinn og ný bresk samantekt á helstu rannsóknum leiðir í ljós að í raun eru engar sannanir um að mikill skjátími sé beinlínis skaðlegur heilsu barna. Hins vegar er í sömu úttekt varað við því að skjátími geti haft neikvæð áhrif þegar hann kemur í stað jákvæðrar virkni, s.s. að eiga félagsleg samskipti, stunda hreyfingu og fá góðan svefn. Einnig ef skjánotkuninni fylgir slæmt mataræði.
Foreldrar þurfa því að leitast við að skapa jafnvægi í lífi barna sinna og spyrja sig hvort skjátíminn hafi áhrif á fjölskyldulífið, heilsu, svefn og vinatengsl og hvort barnið njóti þess að nota miðlana.
Óttinn við að tækni og framþróun hennar skemmi eða eyði einhverju sem við teljum dýrmætt hefur lengi fylgt tækninýjungum. Sókrates hafði á sínum tíma áhyggjur af að hið ritaða mál myndi veikja minnið. Sá ótti reyndist hins vegar ástæðulaus þar sem bækur eru viðbót við minnið. Nietzche talaði um að ritvélin hans væri „fyrirbæri eins og ég,“ hún væri ekki einungis tæki heldur mótaði hún hugsanir hans.
Prentbyltingin hafði gríðarleg áhrif á hvernig við hugsum og síðar meir komu útvarpið og sjónvarpið sem breyttu aftur landslaginu. Tæki eins og vasareiknirinn auðveldaði heilanum að færa hugmyndir úr vinnsluminni yfir í langtímaminni en áhrif Netsins eru talsvert ólík þar sem því fylgir mun meira álag á vinnsluminnið. Fljótlega var litið á Netið sem staðgengil minnisins frekar en einungis viðbót. Netið hefur að mörgu leyti tekið yfir ákveðna virkni minnisins þar sem fólk á auðveldara með að leita á Netinu að tilteknum hlutum frekar en að leggja þá á minnið.
Gerir upplýsinga- og tækniöldin okkur þá kleift að vita meira, eða vitum við í raun minna? Þótt við séum upplýst um meira? Vasareiknirinn sem er öflugt en mjög sértækt tæki reyndist vera aðstoð við minnið en að sumu leyti má segja að Netið sé tækni gleymskunnar þar sem notkun þess fylgja oft stöðugar truflanir og minni líkur eru á djúpri íhugun og að við festum hluti í minni. Við mótum verkfærin og svo móta þau okkur. Jafnvægi er því lykillinn í þessu sem öðru.