Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Ekki annað plöntuklúður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dómnefnd sem hafði það hlutverk að velja sigurvegara í samkeppni um útilistaverk í hinu nýja Vogahverfi kynnti niðurstöður sínar í gær. Fyrir valinu varð tillaga hinnar þýsku Karin Sander og „gerir ráð fyrir að tveimur pálmatrjám sé komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafi ljós og hlýja.“ Um var að ræða eina viðamestu samkeppni um útilistaverk sem efnt hefur verið til í Reykjavík og er kostnaðurinn, sem borinn er sameiginlega af Reykjavíkurborg og lóðaeigendum í Vogabyggð, áætlaður 140 milljónir króna.

Útilistaverk í umhverfi okkar eru bráðnauðsynleg og það má með góðum rökum halda því fram að það eigi að vera mun fleiri. Listin auðgar ekki aðeins umhverfi okkar heldur segir hún okkur hver við raunverulega erum. Byggð án listar er á mörkum þess að kallast samfélag. Það er líka algengur misskilningur að listin megi ekkert kosta. Það ber að meta hugmyndir og vinnu listamanna til fjár, rétt eins og vinnu verkamanna, lögmanna og annarra starfstétta. 70 milljónir í fallegt listaverk sem standa mun í áratugi íbúum og öðrum vegfarendum til ánægju og yndisauka er ekki sóun á fjármunum.

Óhætt er að segja að niðurstöðu dómnefndarinnar hafi verið fálega tekið og líklega hafa þau sem nefndina skipuðu ekki séð fyrir sér þau ofsafengnu viðbrögð sem sigurtillagan átti eftir að vekja. Fjölmargir ruku á samfélagsmiðla til að ausa úr skálum reiði sinnar á meðan aðrir kepptust við að hafa það í flimtingum. Að venju er þar margt og misgáfulegt að finna, svo sem popúlísk hróp um að óverjandi sé að eyða fjármunum í listaverk á meðan einhver þarna úti býr við skort. Annars staðar má þó rekast á góð og gild umhugsunarefni.

Þannig bendir sagnfræðingurinn Stefán Pálsson á að víða í borginni megi finna listaverk sem ekki þjóna hlutverki sínu sem skyldi vegna þess að ekki var hugsað til enda hvernig átti að viðhalda þeim svo sómi sé að. Til dæmis hefur kostnaður við umsýslu Fyssu í Laugardal orðið til þess að slökkt hefur verið á tækja- og tölvubúnaði í áratug. Gervigoshverinn Strókur í Öskjuhlíð hefur legið í dvala í mörg ár af sömu ástæðum og Orkuveitan og Reykjavíkurborg deildu um hvor skyldi standa straum af rekstri Friðarsúlunnar í Viðey.

Þessi atriði virðast ekki hafa verið hugsuð til enda í vali dómnefndarinnar því morgunljóst er að það er heljarinnar verk að halda lífi í risavaxinni suðrænni plöntu á 64. breiddargráðu. Er nóg að horfa á þyrnum stráða sögu pálmatrjáa á Íslandi, til dæmis í Perlunni forðum daga. Dómnefndin las borgarbúa heldur ekki rétt þegar hún komst að þessari niðurstöðu sinni, því af viðbrögðunum að dæma hafa þeir enga þolinmæði fyrir öðru mögulegu plöntuklúðri líkt og raunin varð í braggamálinu.

Borgin hefur hins vegar annað tromp í erminni sem lítið hefur verið minnst á í umræðunni fram til þessa. Hún festi nefnilega einnig kaup á tillögu dansks listamannahóps sem felur í sér að einn 30 metra ljósastaur komi í stað venjulegs staurs við einhverja götu eða torg í Vogabyggð. Í umsögn dómnefndar segir: „Tillagan er húmorísk og bætir ljóðrænni vídd í hversdaginn í þessu nýja hverfi. Við vissar aðstæður getur ljósið á þessum háa staur verið eins og stjarna yfir byggðinni.“ Þessu trompi þarf borgin að spila út.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -