Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Ferðamenn stinga af frá sektum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árlega fara tugir erlendra ferðamanna sem stöðvaðir eru af lögreglu vegna umferðarlagabrota úr landi án þess að greiða sektina. Þótt þeir séu kallaðir fyrir dóm er ekkert sem yfirvöld geta gert til að hafa hendur í hári þeirra ef þeir eru búsettir utan Norðurlanda.

Sprenging í fjölda ferðamanna undanfarin ár hefur skilað sér í auknum hagvexti, miklum fjárfestingum í innviðum og mannvirkjum og störfum í ferðaþjónustu og afleiddum störfum hefur fjölgað gríðarlega á öllu landinu, sérstaklega á suðvesturhorninu.

Vöxtur greinarinnar hefur líka ýmsar aðrar afleiðingar í för með sér. Ágangur á náttúruauðlindir, erfiðari leigumarkaður fyrir einstaklinga og fjölskyldur í leit að húsnæði og að mati margra; einsleitari miðborg, með fjölda lundabúða og hótela.

Svo eru atriði sem hafa ekki fengið jafnmikla athygli. Í Lögbirtingablaðinu, undir flokknum fyrirköll og ákærur, vekur athygli hundruð mála síðustu ár þar sem einstaklingar eru kallaðir fyrir dóm vegna vangoldinna sektargreiðslna. Meirihluti þessara mála er vegna umferðarlagabrota en undanfarin ár hefur borið á því að hlutfall ferðamanna sem stinga af úr landi án þess að greiða sektir hefur farið hækkandi. Hlutfallið er hæst á Suðurlandi og Suðunesjum.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni á Blönduósi sem heldur utan um innheimtu sekta er ekkert hægt að gera ef sektarþoli býr utan Norðurlanda en samningur er á milli norrænu ríkjanna um að senda slík mál í þarlenda innheimtu. Ef viðkomandi býr utan Norðurlandanna þá eru ekki samningar á milli ríkja og á það jafnt við um Íslendinga búsetta utan Norðurlandanna sem og erlenda ferðamenn.

Í fyrra voru birtar vel á áttunda tug ákæra í Lögbirtingablaðinu. Langflestar ákærurnar eru vegna hraðaksturs og ölvunar- og fíkniefnaaksturs þar sem erlendir ríkisborgarar eða Íslendingar búsettir erlendis koma við sögu. Sé litið til þjóðerna koma flestir hinna brotlegu, um helmingur allra, frá löndum Austur-Evrópu annars vegar og Ameríku hins vegar. Athygli vekur að þriðji fjölmennasti hópurinn er Íslendingar búsettir erlendis.

- Auglýsing -

Sektir fyrnast á 3-5 árum ef ekki næst í skuldara og sakarkostnaðar á 10 árum. Afskriftarhlutfall sekta og sakarkostnaðar af heild eru um 2% á ári en inni í þeirri tölu eru einnig afskriftir vegna gjaldþrots, greiðsluaðlögunar, náðunar og andláts.

Engar afleiðingar virðast því vera fyrir fólk sem stingur af úr landi án þess að greiða skuldina. Ef hins vegar búið er að taka ákvörðun um afplánun vararefsingar og birta sektarþola áður en hann flytur úr landi er mögulegt að lýsa eftir viðkomandi og handtaka. Ef þessi birta ákvörðun liggur ekki fyrir er ekki heimilt að handtaka fólk fyrir það eitt að eiga útistandandi sektir.

Eigandi bílaleigu á Suðurlandi sem Mannlíf ræddi við segist verða var við fjölda þessara mála en segir að sem betur fer þurfi bílaleigurnar ekki að bera tjón vegna þeirra. „Ef þú skoðar þetta vel þá eru þetta örugglega sektir upp á hundruð milljóna á ári sem aldrei eru borgaðar. Það væri fljótt að setja allar bílaleigur á landinu á hliðina ef við þyrftum að bera tjónið af þessu,“ segir hann en umferðarlagabrot eru skráð beint á ökumann en ekki eiganda bifreiðarinnar. „Lögreglan sendir okkur tölvupóst varðandi ákveðin brot og við gefum þeim allar upplýsingar sem við höfum um viðkomandi ökumann og þar með er því lokið af okkar hálfu,“ segir eigandi bílaleigunna.

- Auglýsing -

Mannlíf hefur ítrekað reynt að fá upplýsingar frá lögreglustjóraembættunum á Suðurnesjum og Suðurlandi varðandi nákvæman fjölda þessara mála, beinan umsýslukostnað vegna þeirra og hversu háar fjárhæðir fyrnist á ári vegna ógreiddra sekta. Ekki hafði borist svar áður en blaðið fór í prentun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -