Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Karlar eiga alltaf að vera til í kynlíf

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnari Karli Ólafssyni var nauðgað ítrekað af fjórum karlmönnum í desember 2017. Hann segir það hafa tekið langan tíma að játa það fyrir sjálfum sér að um nauðgun hafi verið að ræða, til að byrja með hafi hann kennt sjálfum sér um. Gunnar kærði ekki mennina, segist ekki treysta sér til að þurfa að mæta þeim í réttarsal.

„Ég bý í Berlín og nauðgunin átti sér stað þar,“ segir Gunnar. „Það var jólapartí í vinnunni hjá mér og eftir að því lauk fórum við nokkur saman á klúbb. Það síðasta sem ég man úr þeirri ferð er að ég pantaði mér bjór um tvöleytið um nóttina og svo var allt svart þar til ég vaknaði klukkan ellefu morguninn eftir við að maður sem ég hafði aldrei séð áður var að nauðga mér í einhverri íbúð sem ég hafði aldrei komið í. Ég er nokkuð viss um að einhverju lyfi hefur verið laumað í bjórinn minn, því svona blakkát hefur aldrei komið fyrir mig áður og ég var alls ekki búinn að drekka í óhófi þetta kvöld.“

Gunnar segist hafa lamast af skelfingu og ekki þorað að hreyfa sig. Hann hafi samt grátbeðið manninn að hætta og láta sig í friði en ekki fengið nein viðbrögð. Gunnar sofnaði aftur eftir fyrstu nauðgunina en vaknaði á ný við að tveir menn í viðbót voru komnir og farnir að misnota hann kynferðislega og þegar þeir hafi orðið varir við að hann var vaknaður hafi þeir sett eitthvert lyf upp í munninn á honum.

Seinna bættist fjórði maðurinn við og þeir skiptust á um að nauðga mér í marga klukkutíma.

„Ég varð ekki rænulaus af þessu lyfi en ég varð hálflamaður og gat ekki hreyft mig. Seinna bættist fjórði maðurinn við og þeir skiptust á um að nauðga mér í marga klukkutíma. Það var ekki fyrr en ég hafði loksins komið þeim í skilning um að ég yrði að mæta í vinnuna klukkan fimm sem þeir leyfðu mér að fara.“

Ræður ekki við sjálfsásökunina

Gunnar mætti beint til vinnu eftir hryllinginn og hann segist í raun og veru ekki hafa gert sér grein fyrir því að honum hefði verið nauðgað heldur hafi það verið sjálfsásökunin sem hafði yfirhöndina.

„Ég kenndi sjálfum mér um þetta allt saman til að byrja með. Skammaði sjálfan mig fyrir að hafa drukkið of mikið og ekki passað drykkinn minn betur, þetta væri allt mér að kenna. Þótt ég viti betur núna þá stend ég mig samt stundum að því að vera enn að ásaka sjálfan mig fyrir að hafa lent í þessu.“

- Auglýsing -

Þessi viðbrögð kannast eflaust mörg fórnarlömb nauðgana við og Gunnar segist vita það núorðið að þau séu alröng, hann ráði bara ekki við sjálfsásökunina. En datt honum aldrei í hug að kæra þessa menn?

„Ég hugsa enn þá um það á hverjum degi hvort ég ætti að kæra eða ekki. Ég er búinn að komast að því hvaða menn þetta eru, eða þrír af þeim reyndar, ég veit ekki enn hver sá fjórði er. En fyrir mér lítur dæmið þannig út að þeir eru fjórir á móti einum og þegar maður horfir á tölfræðina yfir það hversu oft svona kærur enda með sakfellingu þá get ég ekki haft mig í það. Ég sé mig ekki fyrir mér í dómsal ef þeir yrðu sýknaðir og mér og öllum öðrum myndi finnast að ég væri að ljúga, þannig að ég á mjög erfitt með það að treysta mér í það ferli, enn þá að minnsta kosti.“

Þegar maður horfir á tölfræðina yfir það hversu oft svona kærur enda með sakfellingu þá get ég ekki haft mig í það.

Spurður hvort hann hafi á tilfinningunni að sé tekið öðruvísi á nauðgunum á karlmönnum heldur en konum segist Gunnar alveg viss um það.

- Auglýsing -

„Ég held það sé aðallega vegna þess að það er miklu minna talað um nauðganir á karlmönnum. Sú umræða er nokkrum árum á eftir, kannski skiljanlega af því þetta hefur verið svo mikið tabú í umræðunni. Það er sennilega aðeins minna tabú fyrir mig sem samkynhneigðan mann að tala um það en ég held að gagnkynhneigðir karlmenn sem hafa lent í því sama eða svipuðu eigi mun erfiðara með að segja frá. Það þykir mér mjög leitt og vona að það breytist sem fyrst. Það þarf að opna umræðuna um þetta og það er ein af ástæðum þess að ég samþykkti að koma í þetta viðtal.“

Nauðgunin ýfði upp gömul sár

Gunnar burðaðist með skömmina og sjálfsásökunina í heilt ár án þess að leita sér hjálpar eða ræða málið við nokkra fagmanneskju. Í desember síðastliðnum var hann um það bil að brotna algjörlega saman undan álaginu sem því fylgdi og brá á það ráð að taka upp tæplega tuttugu mínútna myndband þar sem hann sagði sögu sína. Myndbandið birti hann síðan á Facebook-síðu sinni og eftir það fóru hjólin að snúast.

„Ég er enn að mörgu leyti í rúst eftir þetta atvik,“ viðurkennir Gunnar.

„En ég hef fengið mikla hjálp eftir að ég birti myndbandið og er farið að líða mun betur. Ég þekki framkvæmdastjóra Samtakanna ’78 og þegar hann sá myndbandið sendi hann mér línu og benti mér á að Samtökin væru með fría ráðgjöf og sálfræðiþjónustu í svona málum og hvatti mig til að nýta mér hana, sem ég gerði. Síðan fór ég líka til sálfræðings nokkrum sinnum í Berlín, og hef haldið áfram að vera í fjartímum hjá honum í gegnum Facetime því ég er svo mikið á flakki út af vinnunni minni. Það hefur hjálpað mikið, en ég hef ekki getað nýtt mér það eins mikið og ég hefði viljað.“

Ég fékk sem betur fer engan skít yfir mig vegna myndbandsins, bara stuðning frá ættingjum og vinum.

Í myndbandinu rifjaði Gunnar einnig upp misnotkun sem hann varð fyrir af hendi eldri drengs þegar hann var fimm ára og einelti sem hann varð fyrir eftir að hann kom út sem samkynhneigður tólf ára gamall. Hann segist aldrei hafa talað um það fyrr, en nauðgunin hafi ýft þau sár upp þannig að hann hafi setið eftir með óyfirstíganlegan pakka af óuppgerðum tilfinningum. Hann segist eingöngu hafa fengið jákvæð viðbrögð við myndbandinu og það hafi hjálpað honum mikið að koma þessu frá sér en hann hafi engu að síður ákveðið að taka myndbandið af síðunni eftir dálítinn tíma, honum hafi ekki hugnast sú tilhugsun að það yrði aðgengilegt á Netinu um ókomna tíð.

„Ég fékk sem betur fer engan skít yfir mig vegna myndbandsins, bara stuðning frá ættingjum og vinum, en ég veit alveg að mörgum finnst svona vera athyglissýki. Ég verð nú samt að segja að ég vil frekar vera athyglissjúkur en að byrgja allt inni og þróa kannski með mér alkóhólisma eða einhverja aðra sjúkdóma vegna óuppgerðra mála.“

Þótt honum líði mun betur eftir að hafa leitað sér hjálpar segir Gunnar dagana þó enn vera sveiflukennda og honum hafi margoft dottið í hug að binda enda á eigið líf.

„Stundum er maður alveg á núllinu og fer inn í sjálfsvígshugsanir,“ viðurkennir hann. „Þetta er ansi stór pakki sem ég þarf að vinna úr. Mér finnst ég vera kominn á rétta braut en út af þessum áföllum öllum líður mér líka oft eins og ég viti ekki almennilega hver ég er og allt sem ég geri sé bara til að þóknast öðrum og passa mig að æsa engan. Alltaf á varðbergi, alltaf að reyna að reikna út viðbrögð annarra áður en ég þori að segja eitthvað.“

Spurður hvort hann hafi einhver ráð fyrir karlmenn sem er nauðgað til að vinna úr áfallinu er Gunnar snöggur til svars.

„Það er að leita sér hjálpar, alveg tafarlaust,“ segir hann. „Ég beið sjálfur allt of lengi með að fara til sálfræðings og það gerði mér enn meiri skaða að burðast með þetta einn. Og svo er mikilvægt að muna að það varst ekki þú sem gerðir eitthvað til að kalla þetta yfir þig. Það skiptir engu hvort þú ert að drekka, hvernig þú ert klæddur eða hvar þú ert, það er aldrei þér að kenna þegar einhver ræðst á þig. Aldrei. Það er mikilvægast af öllu að muna það.“

Sjá einnig: Lifði í stöðugum ótta

Og Glímir enn við reiðina.

Mynd / Aðsend

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -