Ný Fokk Ofbeldi húfa er komin í sölu. Þetta er fjórða Fokk Ofbeldi húfan sem UN Women á Íslandi hefur sölu á og rennur ágóðinn í ár til uppbyggingar á kvennaathvarfi fyrir Jasídakonur í Írak.
Í ár fagnar landsnefnd UN Women á Íslandi 30 ára afmæli. Af því tilefni var útliti húfunnar breytt en FO merkið er stærra í ár og úr endurskini. „Með því að kaupa Fokk Ofbeldi húfu tekur þú þátt í að lýsa upp myrkur kvenna og stúlkna sem þurft hafa að þola ofbeldi,“ segir Marta Goðadóttir, herferða- og kynningarstýra UN Women á Íslandi ksdjg
„Ágóði Fokk Ofbeldi húfu sölunnar hefur runnið til verkefna UN Women víða um heim og vinnur að því að koma í veg fyrir og uppræta ofbeldi gegn konum, fræða almenning um skaðlegar afleiðingar kynbundins ofbeldis og tryggja þolendum viðeigandi aðstoð,“ útskýrir Marta.
Ágóði sölu Fokk Ofbeldi húfunnar í ár rennur til þessa kvennaathvarfs.
„Eitt þeirra verkefna er kvennaathvarf fyrir Jasídakonur í Írak sem neyddar voru í kynlífsþrælkun og þurftu að þola gróft kynferðisofbeldi af hendi liðsmanna vígasveita íslamska ríkisins. Í athvarfinu fá þær áfallahjálp og aðstoð við að vinna úr skelfilegri reynslu og koma sér aftur af stað út í lífið. Einnig fá aðstandendur þolenda faglega aðstoð og ráðleggingar um hvernig styðja megi við þær. Ágóði sölu Fokk Ofbeldi húfunnar í ár rennur til þessa kvennaathvarfs.“
Það er ljósmyndarinn Saga Sig sem tók myndir herferðarinnar í ár. Brynja Skjaldar stíliseraði myndatökuna og fyrirsætur herferðarinnar eru Gabríel, Donna Cruz, Ísold Braga og Króli. „Við vildum einfaldlega fá fjölbreyttan hóp fólks í yngri kantinum.“
Húfan hefur selst hratt undanfarin ár að sögn Mörtu. „Þannig að við hvetjum alla til að hafa hraðar hendur og næla sér í húfu og lýsa stolt upp myrkrið. Húfan kostar 4.900 krónur og fæst á www.unwomen.is og í verslunum Vodafone. Þess ber að geta að Vodafone er bakhjarl herferðarinnar.“