Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi segir umræðuna um verk Karin Sander í kringum hann vera jákvæða. „Fólki sem ég þekki finnst þetta djarft og fallegt og óvænt.“
Mikil umræða hefur skapast síðan greint var frá því að tvö pálmatré munu prýða nýja íbúðarbyggð í Reykjavík. Pálmatréin eru hluti af listaverki þýsku listakonunnar Karin Sander. Margt fólk hefur sterka skoðun á verkinu og ekki síður verði verksins en það kostar 140 milljónir.
Listaverk Karinar bar sigur úr býtum í samkeppninni um útilistaverk í Vogabyggð. Niðurstaða dómnefndar var kynnt í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum í gær.
Í dómnefnd sátu Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður dómnefndar, Signý Pálsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri menningarmála hjá Reykjavíkurborg, Ólöf Nordal, myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands, og myndlistarmennirnir Baldur Geir Bragasonar og Ragnhildur Stefánsdóttir. Í samtali við Mannlíf segir Hjálmar að niðurstaða dómnefndar hafi verið einróma.
Spurður út í hvernig umræðan í kringum pálmatréin leggst í hann og hvernig hún sé í kringum hann segir Hjálmar: „Umræðan um verk Karin Sander í kringum mig er jákvæð. Fólki sem ég þekki finnst þetta djarft og fallegt og óvænt. Þeir sem til þekkja vita líka að Karin Sander er stórt nafn í listaheiminum í dag. Auðvitað fer ekkert framhjá mér að sumir eru hissa og margir fjúkandi reiðir á netmiðlum. Ég get skilið það að vissu leyti. Ég var sjálfur hissa þegar ég sá tillöguna en sannfærðist fljótlega um að þetta verður frábært verk sem á eftir að verða kennileiti nýrrar Vogabyggðar.
Auðvitað fer ekkert framhjá mér að sumir eru hissa og margir fjúkandi reiðir á netmiðlum.
Held líka að einhverjir munu breyta um skoðun þegar þeir sjá hvernig er staðið að fjármögnun innviða í Vogabyggð.“
Sjá einnig: Hver er Karin Sander, listakonan á bak við pálmatréin í Vogabyggð?
Mynd / Skjáskot af RÚV