Í desember stofnaði hin 22 ára Arnrún Bergljótardóttir Instagram-síðuna Undir Yfirborðinu og birtir þar viðtöl sem hún tekur við fólk á aldrinum 16-25 ára um andleg veikindi. Á skömmum tíma hefur síðan vakið töluverða athygli.
Arnrún segir hugmyndina að síðunni Undir Yfirborðinu hafa kviknað eftir að hún sjálf leitaði sér aðstoðar vegna þunglyndis og fann hamingjuna á ný.
„Ég var búin að vera þunglynd í um það bil fimm mánuði þegar ég ákvað að leita mér hjálpar hjá Píeta samtökunum, sem er forvarnarstarf gegn sjálfsvígum. Ég byrjaði einnig í hópmeðferð hjá Stígamótum vegna kynferðisofbeldis sem ég varð fyrir verslunarmannahelgina árið 2015. Ég fór í veikindaleyfi úr vinnu og bjó til mitt eigið endurhæfingaprógram sem gjörsamlega bjargaði andlega ástandinu mínu,“ útskýrir Arnrún.
„Hægt og rólega fann ég að hamingjan var að blossa upp á ný, mér byrjaði að líða eins og ég vildi upplifa annan dag. En þá byrjaði ég að hugsa til þeirra sem eru enn þá á sama stað og ég var á. Ég velti því fyrir mér hvernig ég gæti leyft þeim að finna að þau eru ekki ein í þessari andlegu baráttu. Ég byrjaði að taka viðtöl við ungt fólk sem ég vissi að höfðu gengið í gegnum andlega erfiðleika. Hægt og rólega fóru fleiri að hafa samband við mig sem vildu koma í viðtal og núna eru um það bil 200 manns á biðlista og þeim fjölgar með degi hverjum,“ segir Arnrún. Hún bendir áhugasömum að skoða Instagram-síðuna og viðtölin sem þar eru að finna, @undir_yfirbordinu.
Hægt og rólega fann ég að hamingjan var að blossa upp á ný, mér byrjaði að líða eins og ég vildi upplifa annan dag.
„Með síðunni langar mig að fræða fólk um mismunandi upplifun ungs fólks af geðsjúkdómum og andlegum kvillum,“ segir Arnrún sem vonar þá að verkefnið muni draga úr fordómum fólks.
Arnrún segir viðtökurnar hafa verið afar góðar og að fólk hafi greinilega áhuga á málefninu. „Fólk er að hvetja mig áfram með því að segja mér að viðtölin og umræðan hefur hjálpað þeim. Um daginn sendi ókunnugur strákur mér skilaboð þar sem hann talaði um að honum fannst Undir Yfirborðinu vera „besta Instagram síða sem hefur verið stofnuð hingað til“. Það hvatti mig alveg rosalega, því ég á það til að detta niður sjálf og líður eins og þetta hjálpi engum en það er fólk eins og hann sem lætur mig trúa öðru.“
Skammaðist sín fyrir kvíðaröskunina
Að mati Arnrúnar vantar upp á fræðslu og upplýsingaflæði til ungs fólks um geðsjúkdóma og einnig starfsemi heilans.
„Heilinn stjórnar öllu, hann bregst við áföllum án þess að við höfum eitthvað um það að segja en samt sem áður höfum við lært mjög takmarkað um hann. Ef ég hefði fengið fræðslu á sínum tíma um kvíðaröskun þá hefði ég ekki falið einkennin mín í fjögur ár, logið að öllum að kvíðalyfin mín væru verkjalyf og sagt að ég væri að fara til læknis þegar ég var í rauninni að fara til sálfræðings í áfallahjálp.“
Það kom mér smávegis á óvart hvað öllum hefur liðið vel í viðtölunum hingað til.
Núna hefur Arnrún tekið viðtöl við um 40 einstaklinga og birt hluta þeirra. Spurð út í hvort það hafi gengið vel að finna viðmælendur og fá þá til að tjá sig segir Arnrún: „Ég hef ekki orðið vör við að viðmælendurnir eigi erfitt með að tjá sig fyrir framan myndavélina, ég vil trúa því að það sé vegna þess að þau eru búin að vera að bíða eftir að fá að segja sína sögu, að einhverjum þykir vænt um þeirra batasögu. Það kom mér smávegis á óvart hvað öllum hefur liðið vel í viðtölunum hingað til. Ég held að ég passa mig nefnilega á að láta þeim líða eins og þau séu ekki ein og minni þau á að ekkert sem þau segja mun koma mér á óvart eða í ójafnvægi.“
Arnrún kveðst vera þakklát fyrir allt það fólk sem er tilbúið að leggja verkefninu lið og koma í viðtal til hennar. „Ég hef fengið að kynnast ótrúlega sterkum einstaklingum. Það hljómar kannski skringilega en mér þykir vænt um alla sem hafa komið til mín í viðtal.“
Síðan Arnrún setti verkefnið á laggirnar í desember hefur margt fólk haft samband við hana og tjáð henni að viðtölin sem hún tekur á birtir á Instagram hafi hjálpað sér. „Það er gott að vita að maður er ekki einn, sama hvað.“
https://www.instagram.com/p/Brg2bnOhLhl/