Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Góðar hugmyndir spretta frá klárum kollum sem vinna saman

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

SKODUN eftir / Dr. Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur

Fyrir fimm árum byrjaði ég að kenna kúrs sem heitir Framtíðarvinnumarkaður, sem valáfanga í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Fáir höfðu heyrt um fjórðu iðnbyltinguna og þegar ég spurðist fyrir um hverjir væru helstu sérfræðingar í „framtíðar-trendum“ á Íslandi til að fá sem gestafyrirlesara varð fátt um svör. Veldisvöxtur tækniframfara var ekki oft ræddur og margar hugmyndir sem við nemendur mínir könnuðum þá, eins og sjálfstýrðir bílar og að drónar myndu afhenda vörur þóttu skrýtnar.

Núna hafa flestir heyrt um fjórðu iðnbyltinguna og áhrif hennar og fleiri og fleiri eru að sérhæfa sig í að hugsa og spá fyrir um framtíðina, ekki bara spákonur og miðlar heldur vísindafólk og aðrir hugsuðir.

Leiðtogar, bæði pólitískir og í viðskiptalífinu verða að vera meðvitaðir og opnir fyrir því sem koma skal. Ef við lítum til lengri framtíðar þá hafa framtíðarfræðingar eins og Ray Kurtsweil sett fram þá sýn að árið 2045 verði mannkyn orðið samofið tækninni, við verðum að hluta tölvur sem gerir okkur kleift að verða eilíf. Í kringum 2020 eða á næstu árum munum við með nanótækni geta haft þau áhrif á ónæmiskerfi okkar verði styrkt gegn helstu sjúkdómum sem fólk nú deyr úr. Upp úr 2030 mun sýndarveruleikinn gera það að verkum að við getum „setið“ saman þrátt fyrir að lönd og höf aðskilji okkur og jafnvel „snert“ hvert annað.

Leiðtogar, bæði pólitískir og í viðskiptalífinu verða að vera meðvitaðir og opnir fyrir því sem koma skal.

Margir óttast framtíðina en þegar við sjáum hvað er mögulegt þá hef ég engar áhyggjur. Við höfum aldrei haft það jafngott í sögulegu samhengi. Á síðustu tuttugu árum hefur fátækt í Asíu minnkað um 90% samkvæmt World Bank. Þetta hefur gerst í kjölfar þess að Asíuþjóðirnar fóru úr frumgreinaframleiðslu yfir í upplýsingasamfélög. Lýðræði hefur aldrei verið eins útbreitt í heiminum og við erum meira og minna tengd hvert öðru. Snjallsíminn sem kemst í vasann þinn er milljón sinnum ódýrari og minni og þúsund sinnum öflugri en fyrsta tölvan sem tók hálfa byggingu fyrir rúmum fjörtíu árum. Veldisvöxtur tækninnar gerir það að verkum að næsti snjallsími verður mun ódýrari og öflugri en sá sem þú kaupir í dag. Gervigreindin mun gera heilbrigðisþjónustu einstaklingsmiðaða og ódýrari fyrir samfélög þar sem hægt verður að nýta tölvur til lausna eins og til dæmis var fjallað um í Háskóla Íslands í vikunni þar sem dr. Fjóla Helgadóttir kynnti lausnir vegna félagsfælni í erindi sem hét: Geta tölvur verið góðir þerapístar? Tölvur eru betri en menn í að greina réttar meðferðir læknisfræðilega á sumum sviðum.
Á þessu ári er líklegt, samkvæmt The Economist að efnahagslegar sviptingar verði í Bandaríkjunum og að hægja muni á vexti í Kína. Regluverk gagnvart gögnum og upplýsingum verður líklega endurskoðað og hert. Fleiri og fleiri verða vegan. Y-kynslóðin sem á ensku er kölluð „millennilas“ eða fólk sem fætt er milli 1981-1996 verður fleira á vinnumarkaði en aðrar kynslóðir í Bandaríkjunum. Sú kynslóð ólst upp með tækninni og hefur önnur gildi og skoðanir en þær sem á undan komu. Y-kynslóðin ætlast til að fyrirtæki séu græn og félagslega ábyrg. Hún gerir ekki endilega ráð fyrir að eiga heimili eða bíla og hún kom af stað #metoo-byltingunni.

Það eru 150 ár frá fæðingu Mahatma Gandhi og það verða kosningar á Indlandi í ár. Það eru fimm hundruð ár frá fæðingu Leonards da Vinci sem sá fyrir svo margt af því sem okkur nú finnst sjálfsagt. Það er svo mikilvægt að fylgjast með hinum stóra heimi og með vísindum og tækni til þess að skilja okkur sjálf og umhverfi okkar.

- Auglýsing -

Leiðtogar sem hafa visku til að bera og eru opin og jákvæð gagnvart möguleikum framtíðarinnar eru nauðsynlegir í heiminum en ekki síst á okkar litla landi.

Nú þegar ég hef kennslu í Framtíðarvinnumarkaði í sjötta sinn erum við að leika okkur með að reyna að sjá fyrir allt það sem hugurinn hefur ekki einu sinni möguleika á að sjá fyrir því framtíðin kann að vera svo ólík því sem nú er. Á sama tíma má segja að hvert fyrirtæki, hver stofnun og hver skipulagsheild þurfi á leiðtoga að halda sem hefur visku til að láta klára kolla fá hugmyndir sem gefa af sér, því framtíðin er núna.

Höfundur er dósent við Viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -