Föstudagur 13. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Golfparadís sem dagaði uppi í hruninu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Forsaga vatnsstríðsins í Skorradal – Golfvöllur í landi Indriðastaða átti að verða einn sá glæsilegasti á landinu en háleit markmið döguðu uppi í bankahruninu. Hrunið átti eftir að hafa víðtækari áhrif á umrætt land því danskir fjárfestar keyptu það á nauðungarsölu af Landsbankanum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans og standa nú í deilum við sumarhúsaeigendur.

Þann 7. desember síðastliðinn sagði Mannlíf frá máli sem kallað hefur verið vatnsstríðið í Skorradal. Málið snýst um að Héraðsdómur Vesturlands synjaði fyrir skemmstu kröfu Ingólfs Garðarssonar, fyrir hönd Félags sumarhúsaeigenda í landi Indriðastaða í Skorradalshreppi, um staðfestingu lögbanns sem sýslumaðurinn á Vesturlandi lagði við því að landeigendur loki fyrir rennsli neysluvatns úr vatnsveitu í landi jarðarinnar. Málinu hefur verið áfrýjað.

Málið er allt hið flóknasta og spannar forsaga þess yfir áratug en fyrir bankahrunið 2008 voru uppi metnaðarfull áform um uppbyggingu á svæðinu, meðal annars uppbygging á einum flottasta golfvelli landsins.

Frístundabyggð í landi Indriðastaða byggist upp
Fyrstu sumarbústaðirnir í landi Indriðastaða risu á sjöunda áratug síðustu aldar. Árið 2000 hóf Inger Helgadóttir, fyrrum bóndi í Skorradal í Borgarfirði, markvissa skipulagningu og uppbyggingu frístundabyggðar í landinu. Árið 2005 kom fjárfestirinn Jón Sandholt inn í reksturinn en hann hafði lengi átt bústað í landinu. Í kjölfarið var ákveðið að ráðast í enn frekari uppbyggingu og uppbygging golfvallarins sett á laggirnar. Hannes Þorsteinsson golfvallaarkitekt var fenginn til að hanna 27 holu golfvell ásamt æfingasvæði, pútt- og vippflöt, og æfingavelli með þremur stuttum par-3 holum.

Haraldur Már Stefánsson.

Árið 2007 var Haraldur Már Stefánsson, grasvallar- og íþróttafræðingur ráðinn vallarstjóri golfvallarins, og í kjölfarið stofnaður golfklúbbur, eða í mars sama ár. Alls 212 félagar voru skráðir stofnfélagar Golfklúbbs Skorradals (GSD). Síðan hefur lítið frést af þessari golfparadís.

„Hann dagaði bara uppi í hruninu. Það voru opnaðar 9 holur og svo var barist fyrir framkvæmdaleyfi fyrir stækkun golfvallarins en leyfi fékkst ekki fyrir stækkun vallarins af því að það átti að fylgja aukning á sumarbústaðabyggðinni. Það voru uppi raddir í sveitarstjórn Skorradalshrepps að leyfa stækkun vallarins en geyma sumarhúsabyggðina en svo dagaði þetta uppi í hruninu og náði ekki lengra,“ segir Haraldur Már í samtali við Mannlíf.

Verkefnið var þó komið vel af stað, búið var að teikna grunnteikningu af vellinum og byrjað að spila á níu holum. Eins var búið að fjárfesta í tækjabúnaði og öðrum búnaði. „Það var komið vökvunarkerfi sem tengt var inn á þessa vatnsveitu sem tekur vatn úr stíflunni í Skorradalsvatni,“ útskýrir Haraldur Már en hann starfaði áfram fyrir félagið Indriðastaði ehf. þar til það varð gjaldþrota árið 2010.

- Auglýsing -

Lögbannið gildir enn
Samkvæmt heimildum Mannlífs keyptu núverandi landeigendur, Henrik Falster-Hansen og Janne Dorte Knudsen, jörðina sem um ræðir á nauðungarsölu af Landsbankanum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans. Fjárfestingaleiðin var liður í aðgerðum Seðlabankans við afnám fjármagnshafta.

Síðan þá hafa staðið yfir deilur á milli landeigendanna og Félags sumarbústaðaeigenda í landi Indriðastaða um rekstur á vatnsdælu fyrir neysluvatn til sumarhúsanna.

„Við vorum að reyna að beina því í þann farveg að félagið tæki yfir reksturinn á dælunni og næði einhverjum samningum þar um. Það er algengt fyrirkomulag í svipuðum málum. En þau vildu fara að taka einhvern arð út úr þessu, landeigendurnir. Það var það sem við vildum ekki sætta okkur við, það er ekki íslenska leiðin í þessu,“ sagði einn sumarhúsaeigandi sem Mannlíf ræddi við.

- Auglýsing -

Deilurnar urðu til þess að landeigendurnir létu loka fyrir vatnið. Sýslumaðurinn á Vesturlandi lagði í kjölfarið lögbann á að lokað væri fyrir vatnið, að kröfu Ingólfs Garðarssonar sumarbústaðareiganda. Héraðsdómur Vesturlands synjaði þeirri kröfu en Ingólfur staðfesti í samtali við Mannlíf að málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar og lögbannið gildir þar til málið verður tekið fyrir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -