Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.7 C
Reykjavik

Misbýður boðskapur Marie Kondo

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Netflix-þættir tiltektargúrusins Marie Kondo hafa notið mikilla vinsælda hérlendis, en ekki eru þó allir sáttir. Þeirra á meðal er leikkonan Maríanna Clara Lúthersdóttir sem finnst Kondo fara gjörsamlega yfir strikið.

Maríönnu Clöru Lúthersdóttur er nóg boðið.

„Ertu að urlast yfir óreiðinu á heimilnu? Þá gæti verið orðið tímabært að grisja og ein besta aðferðin til þess að fara í gegnum dótið og losa sig við það sem veitir þér enga gleði.“ Þannig hljómar í stuttu máli heimspeki japanska tiltektargúrúsins Marie Kondo sem hefur á síðustu árum farið sannkallaða sigurför um heiminn, m.a. með bók sinni „The Life Changing Magic of Tidying Up“ og svo í nýlegum Netflix-þætti, Tydying Up With Marie Kondo (Taktu til með Marie Kondo) þar sem Maire beitir þessari töfraformúlu, svokallaðri KonMarie-aðferð til að hjálpa dröslurum úr ógöngum. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessum vinsældum, hér hefur bæði verið gott áhorf á þátt Kondo og bók hennar, Taktu til í lífinu selst vel.

„Listir og bækur ganga eftir öðrum lögmálum. Þær eiga ekki aðeins að veita manni gleði.“

Þó eru ekki allir jafn yfir sig hrifnir. Ein þeirra, leikkonan og bókmenntafræðingurinn Maríanna Clara Lúthersdóttir, segir að sér hafi hreinlega orðið illt í hjartanu þegar hún heyrði hvernig Kondo ráðleggur fólki að fara í gegnum bækurnar sínar. „Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja og gráta,“ segir hún. „Það að maður eigi að halda bókunum upp brjóstinu, slá á þær með fingrinum og spyrja sig hvort þær veiti manni gleði eða ekki og nota það sem einhvern mælikvarða á mikilvægi bókmennta er algjörlega út í hött. Þessi pæling að maður eigi að losa sig við allt sem veitir manni ekki gleði eða gagn eða vinnur ekki að því að koma manni áfram í lífinu á kannski við um sokka en ekki listir. Það er af og frá. Listir og bækur ganga eftir öðrum lögmálum. Þær eiga ekki aðeins að veita manni gleði, heldur vekja upp sorg, ótta og bara alls konar tilfinningar, gera mann ringlaðan, opna fyrir manni nýjar víddir og setja mann í spor annarra og það er ekki hægt að smætta það allt niður í tvær kröfur,“ segir hún ákveðin. „Það er bara sorglegt og rangt.“

Gerir umhverfinu engan greiða

Metsöluhöfundurinn og sjónvarpsstjarnan Marie Kondo er ekki allra.

Þess utan segir Maríanna að það sé út í hött að halda því fram að bókakosturinn á heimilinu eigi að endurspegla þá manneskju sem húsráðandi hefur að geyma, eins og Kondo boðar af miklum eldmóð. „Ég veit þá eiginlega ekki hvaða ályktanir væri hægt að draga af mínum bókum. Vissulega er hægt að sjá að ég hef áhuga á garðyrkju og matreiðslu en það segir alls ekki alla söguna og í sannleika sagt er ég sátt við það. Ég vil nefnilega ekkert endilega að fólk sjái á bókunum hvers konar manneskja ég er nákvæmlega og hvaða skoðanir ég aðhyllist. Svo er það nú önnur saga að það væri frekar sorglegt ef ég ætti bara bækur eftir fólk sem ég er sammála. Það myndi heldur betur smætta minn veruleika.“ Fyrir utan það segir hún ákveðna þversögn fólgna í þessu öllu. Sem dæmi eigi hún handbók um hvernig eigi að kenna öðrum að keyra þótt hún sé sjálf ekki með bílpróf og viti ekki einu sinni hvernig hún eignaðist bókina. Bókin endurspegli því engan veginn hennar persónuleika en veki alltaf með henni gleði. „Og hvað á ég þá að gera, henda bókinni eða eiga hana?“

Maríanna viðurkennir að eflaust gangi Kondo gott til og jú, eflaust sé eitthvað fallegt við minimalískar skoðanir hennar – svo langt sem þær nái. „Já, já. Þær eru alveg góðar og gildar til að draga neysluhyggju. En, eins og mér hefur stundum sýnst, t.d. af lífsstílsblöðum, þá hendir fólk dótinu sínu eingöngu til þess að kaupa sér nýtt, mínimalískt dót og þá get ég ekki séð að við gerum umhverfinu greiða. Sjálf er ég miklu frekar fyrir að geyma og endurnýta, breyta og bæta. Og jú, því fylgir vissulega einhver óreiða en ætli megi þá ekki bara segja að óreiðan á heimilinu endurspegli mína innri manneskju.“

Önnur og betri ráð

Hún bendir á það séu líka til ýmsar aðrar góðar og gildar aðferðir við að halda heimilinu, þ.m.t. bókunum í röð og reglu. „Mitt ráð er einfalt: Tvöfaldar hilluráðir. Maður felur þá bara þær bækur, sem komast ekki fyrir, á bak við hinar. Marie yrði eflaust mjög ósátt við það en mér finnst sú lausn betri en að losa mig við allar bækur sem endurspegla ekki minn innri mann eða færa mér ekki hamingu,“ segir hún og bætir ákveðin við: „Á mínu heimili verða bækurnar a.m.k. það síðasta sem fer.”

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -