Dýraspítalinn í Garðabæ birti í gær óhugnanlegar myndir sem sýna hvaða áhrif rafmagnshálsólar geta haft. Myndirnar sýna meðal annars sár á hálsi hunds sem kom í árlega skoðun á spítalann. Rafmagnsólar eru bannaðar á Íslandi og var notkun ólarinnar tilkynnt til MAST sem ill meðferð.
„Það er ástæða fyrir því að rafmagnsólar eru bannaðar á Íslandi og fleiri og fleiri lönd hafa tekið það upp.“ Svona hefst færsla sem birt var á Facebook-síðu Dýraspítalans í Garðabæ í gær. Færslunni fylgdu fjórar myndir sem teknar voru á spítalanum. Á myndunum má sjá brunasár á hálsi hunds og rafmagnsólina sem olli sárunum.
„Rafmagnsól getur í besta falli aukið á vanlíðan en í versta falli valdið hundi bæði líkamlegum og sálarlegum skaða. Hér eru myndir af ól sem var á hundi sem kom á Dýraspítalann í Garðabæ. Hann kom í árlega skoðun og árvökull dýralæknir rak augun í tækið og sárin sem komin voru undan tækinu. Eigandinn var ekki meðvitaður um að tækið hafði brennt og sært hundinn í einhvern tíma,“ segir í færslunni.
Þá kemur einnig fram að eigandi hundsins hafi notað rafmagnsólina til að koma í veg fyrir að hundurinn gelti á umferð manna og dýra sem áttu leið fram hjá heimili hans.
„Þarf ekki að hafa frekari orð um hversu röng þessi aðferð er til að fá hundinn til að hætta að gelta. Hundar eiga ekki að vera bundnir úti og þeim er eðlislægt að gelta á það sem fer hjá , sérstaklega þegar þeir eru að láta vita…besta leiðin til að koma í veg fyrir geltið er að hafa hundinn ekki einan úti. Stundum eru álíka aðferðir notaðar á hunda sem gelta þegar þeir eru einir heima. Vandamálið er vanlíðan og aðskilnaðarkvíði. Svona meðferð tekur þannig ekki á ástæðunni fyrir geltinu heldur eykur mjög á hræðsluna sem fyrir er. Sorgleg dæmi.
Þetta var tilkynnt til MAST sem ill meðferð.“
Mynd / Skjáskot af Facebook