Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Hversu góður er góður díll?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

SKOÐUN Nú í upphafi árs, að loknum stórhátíðum, hefur löngum verið hefð fyrir miklum útsölum. Þó hefur töluverð breyting verið á undanfarin misseri þar sem sífellt fleiri tilboðsdögum er skellt á með reglulegu millibili yfir árið, eins og til dæmis föstudagsfárinu í lok nóvember, sumar-, vetur- vor- og haustútsölum, og kaupæðisköst eru þess á milli. Þá dynja jafnan á okkur auglýsingar um þá félaga Tilboð, Spottprís og Afslátt.

Útsölur eru ávanabindandi, jafnt fyrir framleiðendur, seljendur og kaupendur. Framleiðendur og verslanir þurfa að ná skammtímamarkmiðum um sölutölur og lækka til þess verð, en ganga þannig á langtímavirði varanna sem þær selja. Og neytendur læra að bíða með að versla þar til varan fæst á útsölu. „Og hvað er að því?“ gæti einhver spurt? Hverjum finnst ekki eftirsóknarvert að fá „góðan díl“?

Frá því á steinöld hefur maðurinn hlaupið á eftir „góðum díl“. Hann hljóp á eftir særðum dýrum sem segja má að hafi verið ígildi afsláttar þar sem það útheimti minni orku að ná þeim en þau hraustu og sprettharðari. Síðar beislaði maðurinn náttúruna og fór að ala dýr þar sem það útheimtir enn þá minni vinnu en að elta þau. Það var sem sagt afsláttur af fyrri háttum. Sama má segja um útsölur dagsins í dag – við hlaupum á eftir því sem við teljum okkur geta fengið með minni fyrirhöfn en ella. En stundum hlaupum við á eftir tilboði, án þess að hugsa til enda hvort okkur vanti í raun og veru það sem við getum klófest á góðum kjörum.

Þá þurfum við líka að velta fyrir okkur hvort við þurfum allt sem við kaupum. Sækjumst við hugsanlega meira eftir því að ná góða dílnum, en því sem nemur notagildi hins keypta?

En eru bestu kaupin alltaf best? Neytendasamtökunum berast því miður tilkynningar um að einhverjar verslanir hafi stundað það að hækka vöruverð rétt fyrir útsölur, einungis til bjóða þær á útsöluverði. Slíkt er náttúrlega ekki góðir viðskiptahættir og brjóta í bága við lög. En sannleikurinn er sá, að í þeirri ofgnótt upplýsinga sem við lifum, er oft erfitt að átta sig á því hvað sé „góður díll“.
Fatnaður er gott dæmi um vörur sem reglulega eru seldar í miklu magni á útsölum og á hverju ári eru flutt inn um 12 kíló af textílvörum á hvern Íslending. Á sama tíma hendum við um 10 kílóum á mann af fötum á ári. Með tilliti til sótspors og kostnaðar sem af þessu hlýst fyrir okkur sjálf og umhverfið komumst við ekki hjá því að spyrja okkur sjálf hvort þetta sé ekki ofneysla.

Að eyða til þess að græða, gengur einfaldlega ekki upp og við þurfum ekki að kaupa þá fullyrðingu. Hún er ekki góður díll, hvorki fyrir neytendur né umhverfið.

Höfundur er formaður Neytendasamtakanna.

- Auglýsing -

Mynd: Haraldur Guðjónsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -