Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Málning er töfraefni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hægt er að innrétta heimilið með skilvirkum og ódýrum hætti – þótt vissulega finnst einhverjum það vera dýrt sem öðrum finnst vera ódýrt. Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum, gefur nokkur góð ráð hvað þetta varðar.

Það þarf oft ekki að gera mikið til að breyta ásýnd heimilisins örlítið en það sem passar einum passar kannski ekki öðrum. „Það sem er ódýrt fyrir einn er dýrt fyrir annan og svo fer þetta líka eftir því hvort um er að ræða nýtt eða gamalt húsnæði,“ segir Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum. Fólk ætti að byrja á því að taka saman hvað það langar til að gera, hvað það gæti kostað og velja svo og hafna. Það er gott að vita áður út í hvað er verið að fara og sjá hvað er brýnt að gera.“

Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum. Mynd úr einkasafni.

Hún segir að ef verið sé að tala um venjulegt heimili og fólk vilji breyta með ódýrum og á sem hagkvæmasta hátt, þá myndi hún segja að málning væri töfraorðið. „Það breytir miklu að skipta um lit á veggjum. Það eru svo margir fallegir litir í tísku í dag svo sem bláir, grænir og bleikir tónar en gráu tónarnir eru enn mjög vinsælir og flestir kjósa þá. Það er fólk sem þorir að mála í fyrrnefndu litunum eins og bleikum og grænum en ef það er ekki til miklir peningar þá vill fólk gera eitthvað sem endist og það yrði frekar leitt á slíkum litum.“

Það eru svo margir fallegir litir í tísku í dag svo sem bláir, grænir og bleikir tónar en gráu tónarnir eru enn mjög vinsælir og flestir kjósa þá.

Mála eða bæsa húsgögn

Thelma talar líka um liti á sófasettum og stólum. „Það er best að kaupa sófa og stóla í skotheldum litum svo sem í gráum eða dökkum litum.“ Hún bendir á að ef fólk er leitt á sófanum þá sé tilvalið að kaupa í hann púða eða fallegt teppi til að setja á endann og þá sé hann kominn með nýtt útlit.

Hún bendir á að uppröðun húsgagna skipti máli. „Það skiptir máli hvað tekur á móti manni þegar maður kemur inn; hvað er það fyrsta sem maður sér. Og einnig er líka skemmtilegt að breyta til stundum.“

Thelma segir að eigi fólk húsgögn eða innréttingar sem eru farin að láta á sjá sé tilvalið að lakka þau og setja nýjar höldur á skápahurðar. „Svoleiðis breytir oft öllu,“ segir hún. „Þannig er hægt að breyta innréttingu á frekar ódýran hátt miðað við að kaupa nýja. Tískan í dag er að lakka með svörtu. Það er líka hægt að skipta um flísar á milli efri og neðri skápana í eldhúsinnréttingu sem draga athyglina að sér, en það er svo mikið úrval til af skemmtilegum flísum í dag, og fá nýja borðplötu.“

- Auglýsing -

Falleg lýsing breytir miklu

Thelma segir lýsingu líka skipta miklu máli á heimilum. „Mér finnst íbúðir oft vera undirlýstar, fáar dósir í loftunum og erfitt að finna ljós sem hentar rýminu. Besta lausnin er að nota brautir sem til eru bæði í svörtu og hvítu sem leysir þessi mál. Mikið úrval kastara er til í þessar brautir þar sem þeim er smellt í brautina og auðvelt er að auka við lýsingu eða breyta henni. Með nýmáluðum veggjum og uppfærðri lýsingu er strax búið að breyta umgjörðinni. Ég vil líka minna á gólf- og vegglampa sem gleymast oft en þeir skapa svo skemmtilega stemningu.“

Mér finnst íbúðir oft vera undirlýstar, fáar dósir í loftunum og erfitt að finna ljós sem hentar rýminu.

Púðar, ný gluggatjöld og mottur

- Auglýsing -
Uppgerð hilla sem fékk nýtt líf með svörtu lakki. Í dag notuð sem skóhilla í forstofu. Mynd úr einkasafni.

Thelma nefnir líka gluggatjöld þegar kemur að því að breyta til á heimilinu. „Taugluggatjöld eru í tísku núna sem hanga í brautum og niður á gólf. Rúllugluggatjöld, eða „screen“, eru enn vinsæl en taugluggatjöld gera rýmið svo hlýlegt.“

Hvað gólfið varðar segir Thelma að mottur, sem eru mikið í tísku, geti breytti miklu. „Auðvitað má kaupa sérstakar mottur en það er líka hægt að fara í teppabúðir og láta skera mottur í ákveðnar stærðir en þar fæst svo mikið úrval af litum og mynstrum. Mottur eru góðar í að fela þreytt og lúin gólfefni.“

Thelma nefnir líka plöntur. „Þær lífga einhvern veginn svolítið upp á rýmið,“ segir hún.

Hvað varðar skrautmuni segir hún að það geti verið sniðugt að færa hluti til, setja jafnvel eitthvað í geymslu í einhvern tíma og skipta svo út. „Það er sniðugt að safna þessu í grúppur og láta vera andrými inn á milli.“

Hún segir að annars sé auðvitað misjafnt hvernig umhverfi fólki líði best í. „Heimili þarf yfirleitt að henta nokkrum aðilum og ekki skal gleyma að það þarf líka að virka sem heimili, til dæmis vera praktískt en hlýlegt. Heimilið á að vera griðastaður þeirra sem þar búa og samkomustaður fjölskyldunnar.“

Texti / Svava Jónsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -