Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Njóta áhrifavaldar trausts neytenda?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Andrea Guðmundsdóttir, doktorsnemi í alþjóðasamskipta- og fjölmiðlafræði við City University of Hong Kong, mun halda fyrirlestur á morgun þar sem hún fjallar um rannsókn sína á áhrifavöldum.

Andrea mun meðal annars varpa fram spurningum um hvað liggi að baki vinsældum áhrifavalda, hvernig hinn almenni neytandi upplifir meðmæli áhrifavalda og hvort áhrifavaldar njóti trausts neytenda. Fyrirlesturinn er haldinn undir yfirskriftinni Áhrifavaldar! Trúverðugir neytendur eða auglýsendur?

Spurð út í hvað kemur til að hún sé að rannsaka áhrifavalda segir Andrea: „Vegna þess að það er svo margt áhugavert við það hvernig venjulegt fólk, almennir neytendur, sem byrja að blogga geta öðlast svona miklar vinsældir eins og raun ber vitni. Þeir byrja kannski með nokkur hundrað fylgjendur en eru svo á skömmum tíma komnir með þúsundir fylgjenda. Og þá er áhugavert að skoða hvernig almennir neytendur upplifi meðmæli þeirra.“

Getur reynst erfitt að sjá mun á auglýsingu og meðmælum

Svokallaðir áhrifavaldar hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, sérstaklega eftir að Neytendastofa hefur þurft að minna á að duldar auglýsingar eru bannaðar og að bloggarar þurfa að fylgja ákveðnum reglum þegar kemur að því að birta umfjöllun sem fyrirtæki hafa greitt fyrir.

 Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að bloggarar séu að fá greitt fyrir vinnu sína, en vandamálið er að þetta er stundum ekki nógu skýrt.

„Sumir bloggarar eru að fá greitt fyrir færslur og það hefur verið að færast í aukana með árunum,“ segir Andrea og bendir á að stundum geti verið erfitt fyrir neytendur að gera greinarmun á keyptri umfjöllun og einlægu meðmæli bloggara.

„Samkeppnin er að aukast og auðvitað tekur mikinn tíma að blogga. Þannig að í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að bloggarar séu að fá greitt fyrir vinnu sína, en vandamálið er að þetta er stundum ekki nógu skýrt.“

- Auglýsing -

Andrea bendir á að umræðan í kringum áhrifavalda hafi þróast mikið undanfarið. Aðspurð hvort það sé hennar upplifun að fólk sé almennt orðið meðvitað um viðskiptin sem eiga sér oft stað í kringum færslur bloggara segir Andrea: „Já, það virðist vera að neytendur hafi skilning á bloggarar fái gjarnan greitt fyrir umfjöllun.“

Skoðar hvernig áhrifavaldar bregðast við

Andrea byggir rannsóknarverkefni sitt á upplifun neytenda á áhrifavöldum og hefur til þess búið til mælikvarða þar sem ýmsir þættir eru skoðaðir, svo sem traust og áreiðanleiki. „Með þessum mælikvarða skoða ég hversu trúverðugir áhrifavaldar eru í augum neytenda.“

- Auglýsing -

Til viðbótar við það að rannsaka hvernig neytendur upplifa áhrifavalda er Andrea einnig að rannsaka hvernig áhrifavaldar eru að bregðast við breyttri umræðu. „Áhrifavaldar vilja auðvitað halda sínum trúverðugleika þó að þeir séu að fá borgað. Trúverðugleikinn er þeim mikilvægur. Þess vegna er áhugavert að sjá hvernig þeir bregðast við. Í ljósi þessarar umræðu um „sponsaðar“ færslur þá eru áhrifavaldar gjarnan farnir að leggja meiri áherslu á að það sem þeir eru að skrifa um sé eitthvað sem þeir virkilega mæla með og nota sjálfir.“

Þetta er venjulegt fólk og við viljum gjarnan skoða fólk sem lifir svipuðum lífsstíl og við sjálf.

Að lokum, spurð út í hvort hún hafi komist að einhverri niðurstöðu um af hverju margir áhrifavaldar ná eins miklum vinsældum og raun ber vitni segist Andrea telja hluta ástæðunnar vera þá að neytendur geta frekar samsamað sig við áhrifavalda, miðað við t.d. stórstjörnur. „Þetta er venjulegt fólk og við viljum gjarnan skoða fólk sem lifir svipuðum lífsstíl og við sjálf.“ Hún bendir þó á að í þessu geti falist ákveðin mótsögn því um leið og áhrifavaldar verða mjög vinsælir fá þeir gjafir frá fyrirtækjum og greitt fyrir færslur, ólíkt hinum almenna neytanda.

Áhugasömum er bent á fyrirlestur Andreu sem haldinn verður á morgun klukkan 12.00 í stofu VHV 023 í Háskóla Íslands, fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við MBA námið sem kennt er við HÍ.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -