Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Lítill vinur sem gott er að hafa með í farteskinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
De Profundis, eða Úr djúpunum, er eftir Oscar Wilde.

Anna Gyða Sigurgísladóttir, listakona og dagskrágerðakona, kann að meta ljóðabækur, „non-fiction“, fræðibækur og endurminningar en hún segir að þær bækur sem hafi haft mest áhrif á sig séu flestar óskáldaðs efnis.

Fyrst nefnir Anna til sögunnar bók Oscars Wilde, De Profundis, eða Úr djúpunum, sem er eitt langt bréf sem hann skrifaði undir lok vistar í Reading-fangelsinu árið 1897. „Bréfið skrifar hann til fyrrum elskhuga síns, Lord Alfreds Douglas, sem átti stóran þátt í fangelsuninni en Wilde sat inni fyrir siðferðisbrot þar sem samkynhneigð var ólögleg í Englandi á þeim tíma.
„Á bak við gleði og hlátur getur falist ruddalegt, hart og tilfinningasnautt lundarfar. En á bak við sorgina er alltaf sorg. Þjáningin ber ekki grímu eins og gleðin,“ skrifar hann. Wilde hefur þarna misst nær allt; fjölskyldu, elskhuga, vini, mannorð og fé. Á næstu hundrað blaðsíðum lýsir hann sorg sinni, sálarkvölum og einlægri samúð með samföngum. Leitinni að heilun fléttar hann síðan við trúar- og menningarsögu mannsins, af viðkvæmni en einskærri hnyttni. Wilde lítur yfir farinn veg, setur spurningarmerki við höfundarverkið og spyr sig hvernig hann vilji halda áfram héðan af. Burtséð frá efninu þá get ég lesið De Profundis jafnoft og ég get hoft á Friends – hver lestrarstund er breytileg en alltaf er bréfið eins og lítill vinur sem gott er að ferðast með í farteskinu.“

Þá segir Anna dagbók franska skáldsins George Sand hafa snortið sig djúpt. „Ég fann hana fyrir tilviljun í gefins-kassa fyrir nokkrum mánuðum í París. Ég vissi lítið um Sand en fann strax á mér að þessi eldgamla sundurtætta bók ætti eftir að hafa áhrif á næstu vikurnar. Og hún gerði það. Hugleiðingar Sand um mannsandann, ástina, barneignir, persónulegar játningar og ýmislegt annað heillaði mig upp úr skónum. Svo mikið að bakgrunnsmyndin í tölvunni minni hefur síðan verið portrettmynd sem Felix Nadar tók af Sand sextugri, árið 1864.“

Loks nefnir Anna bókina Chroma: A Book of Colours – June ´93 eftir kvikmyndagerðarmanninn Derek Jarman. „Þetta er óður til lita þar sem Jarman skoðar birtingarmyndir þeirra og setur í samhengi við ýmis listaverk. Undirtónn skrifanna er þó veikindi, og endalok, enda skrifar hann bókina stuttu áður en hann lést af völdum alnæmis. „Blái liturinn er sýnilegt myrkur,“ skrifar hann. „Gátama Buddah leiðbeinir mér að ganga frá lasleika mínum. En hann er ekki fastur við vökvadælu.“ Ritstíllinn er ljóðrænn, frjálslegur og kaótískur í anda við hverfulleika veikinda.“

Mynd: Jón Þorgeir Kristjánsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -