Vinsælt er að bjóða upp á smárétti og kokteila þegar nýja árið er boðið velkomið. Hér eru nokkrir ljúffengir smáréttir úr smiðju Valdísar Sigurlaugar Bragadóttur matreiðslumanns og unaðslegir áramótakokteilar sem Valtýr Bergmann blandaði fyrir okkur.
Tandoori-kjúklingaspjót með jógúrt-raita
10 kjúklingalundir
3 msk. tandoori paste
7 msk. skyr
2 hvítlauksrif
2 tsk. sítrónusafi
salt og pipar
Hrærið tandoori paste og skyr saman og bætið við það rifnum hvítlauk, sítrónusafa, salti og pipar eftir smekk. Setjið kjúklingalundirnar í tandoori-blönduna og látið marinerast í 1 sólarhring. Setjið í ofn við 200°C í 12-15 mín.
Jógúrt-raita
340 g hrein jógúrt
½ gúrka
2 rauðir chili
2 tsk. hunang
salt og pipar
8 myntulauf
Kjarnhreinsið gúrkuna og skerið í litla bita, fræhreinsið chili-inn og skerið smátt. Blandið gúrku og chili saman við jógúrtina og bætið hunangi út í. Skerið myntulaufin þunnt og bætið við, saltið og piprið eftir smekk.
Tómatar og mozzarella
1 pk. kirsuberjatómatar
1pk. mozzarella-ostur, litlar kúlur
½ búnt basil
ólífuolía
salt og pipar
Skerið kirsuberjatómatana í tvennt og setjið annan helminginn á spjót. Setjið síðan mozzarella-kúlu á spjótið ásamt basillaufi og að lokum hinn helminginn af kirsuberjatómatinum. Látið ólífuolíuna leka yfir og saltið og piprið.
Blackeraður lax á baguette
1 laxaflak
snittubrauð (baguette)
teriyaki-sósa (blue dragon)
mangó-chutney (hot spot)
Kryddblanda á lax
2 msk. paprikuduft
1 tsk. karrí
3 tsk. cayenne-pipar
3 tsk. hvítlaukspipar
4 msk. flórsykur
2 msk. salt
Blandið kryddi og flórsykri saman og stráið yfir laxinn og steikið síðan á pönnu í 3 mín. á roðlausu hliðinni og 1 mín. á roðhliðinni. Skerið snittubrauðið þunnt og grillið á pönnu. Setjið laxinn á brauðið og teriyaki-sósu og mangó-chutney yfir.
Grand King
Höfundur: Valtýr Bergmann
3 cl Grand Marnier
1,5 cl Absolut Mandarin
1,5 cl jarðarberjalíkjör
9 cl ananassafi
Allt hrist saman, hellt í longdrink-glas með klökum. Skreyttur með límónubáti, kirsuberi og myntu.
Misty Moss
Höfundur: Leó Icebreaker
3 cl ljóst romm
2 cl Björk líkjör
1 cl sítrónusýra
1 cl fjallagrasasíróp
7cl kolsýrt vatn
Allt hrist saman nema kolsýrða vatnið, drykkurinn er fylltur upp með því.
Borinn fram í kampavínsglasi. Skreyttur með sítrónuberki og timjan.
Piscoteka
Höfundur: Dominic Kocon
4 cl Pisco
2 cl Chambord-líkjör
3 cl límónusafi
3 cl grenadine
2 cl eggjahvíta
3 dropar Cranberry-bitter
Hristur með klaka og hellt í viskíglas. Skreyttur með myntu og sítrónuberki.
„Mikil vinna liggur í flestum þessara drykkja en eins og vitað er hefur kokteilmenningu farið mikið fram bæði hér heima og úti í heimi á síðastliðnum árum.“
Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir og Íris Hauksdóttir
Myndir / Kristinn Magnússon og Aldís Pálsdóttir