Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Þegar góðir menn gera ekkert

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

LEIÐARI Árið 2018 sem nú er að renna sitt skeið verður að teljast eftirminnilegt fyrir ýmsar sakir, hvort sem það er fyrir óvissuna í kringum stöðu íslensku flugfélaganna, þá hörðu og oft óábyrgu orðræðu sem einkennt hefur umræðu tengda kjaraviðræðum, eða skandalana sem skekið hafa íslenskt samfélag undanfarna mánuði, hver á fætur öðrum. Já, þau eru svo sannarlega mörg hneykslismálin sem hafa komið upp á árinu, Orkuveitumálið, framúrkeyrsla hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum í tilefni af hundrað ára fullveldisafmælinu og endurgerð braggans í Nauthólsvík þar sem svívirðilega hefur verið bruðlað með almannafé, svo dæmi séu tekin. Að ógleymdu auðvitað hinu alræmda Klaustursmáli, þar sem á frægri upptöku sem lekið var í fjölmiðla má heyra hvernig þingmenn tveggja stjórnmálaflokka stæra sig af pólitískum hrossakaupum auk þess að níða skóinn af konum, minnihlutahópum og samstarfsfólki sínu á þingi.

Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta sinn sem upp koma hneykslismál sem tengjast stjórnmálum á Íslandi og nú sem endranær virðast íslenskir stjórnmálamenn seint ætla að læra að axla pólitíska ábyrgð þegar þeir gera mistök. Hvort sem það er í Braggamálinu, Klaustursmálinu eða öðrum miður skemmtilegum málum sem hafa komið upp á árinu þá virðist viðkvæðið alltaf vera það sama: Menn ætla að læra af reynslunni að eigin sögn en það er eins og engum detti hreinlega í hug að segja af sér. Það virðist ekki einu sinni koma til greina. Tilhugsunin algjörlega fjarstæðukennd. Og er það þá skrítið að kannanir skuli sýna að almenningur í landinu treysti ekki stjórnmálamönnum þegar stjórnmálamenn hafa hvað eftir annað sýnt að þeir eru ekki traustsins verðir. Þegar viðbrögðin við gagnrýni á störf þeirra virðast oft einkennast af skilningsleysi, lítilli auðmýkt, hvað þá iðrun og stundum, því er miður og verr, hroka og yfirlæti.

„Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta sinn sem upp koma hneykslismál sem tengjast stjórnmálum á Íslandi og nú sem endranær virðast íslenskir stjórnmálamenn seint ætla að læra að axla pólitíska ábyrgð þegar þeir gera mistök.“

Ábyrgðaleysi af þessu tagi er eins og fyrr segir ekki nýtt af nálinni og einskorðast auðvitað ekki við stjórnmál. Ef eitthvað er þá virðist það vera orðið einskonar þjóðaríþrótt á Íslandi að taka ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Það er því kannski ekki undarlegt að einhverjir hugsi með sér að það séu fá tilefni til að vera bjartsýn á að hlutirnir muni eitthvað breytast héðan af. Að svona verði þetta bara áfram.

Slíkur hugsunarháttur er hins vegar engum til góðs og þess vegna er mikilvægt að hann fái aldrei að skjóta rótum í samfélaginu. Að við leyfum ekki einhverju óæskilegu ástandi að grassera og verðum samdauna því. Á mörgum sviðum standa Íslendingar ágætlega í alþjóðlegum samanburði en það hefur svo sannarlega ekki gerst af sjálfu sér og ef við ætlum að halda áfram á sömu braut er meðal annars brýnt, kannski brýnna nú en nokkru sinni fyrr í ljósi undangenginna atburða að gefa sér tíma til að velta málunum fyrir sér, vera vakandi, gagnrýnin og síðast en ekki síst ábyrg sjálf. Láta bölmóðinn ekki bera bjartsýnina ofurliði þegar við kveðjum árið sem er að líða heldur ganga inn í það nýja með þá hugsun að leiðarljósi að við getum öll haft áhrif í samfélaginu og lagt okkar af mörkum til að gera það betra. Hafa hugföst orð stjórnmálamannsins Edmunds Burke sem sagði að eina sem þyrfti til að hið illa sigraði væri að góðir menn gerðu ekkert.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -