Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður hjá RÚV, sendi frá sér nýja matreiðslubók fyrir jólin sem heitir Hvað er í matinn? Þar reynir hún að svara sennilega einhverri algengustu spurningu á hverju heimili.
„Flestir svara oftast „bara eitthvað gott“ en vantar hugmyndir. Í bókinni gef ég uppskriftir fyrir alla daga vikunnar í níu vikur,“ segir Jóhanna Vigdís. „Mér þykir vænt um þessa bók, ég gekk með hana í tíu ár og lagði hug minn og hjarta í hana.“
Hún hefur haft áhuga á matargerð frá því hún man eftir sér. „Áhugann fékk ég fyrst frá mömmu og svo í gegnum þá sem á vegi mínum hafa orðið og líka hafa áhuga á matargerð.“
Stendur allan daginn í eldhúsinu
Jóhanna er fasheldin á margt á aðventu og finnst til dæmis ómissandi þáttur er að skrifa jólakortin. „Ég sendi afar mörg og læt hugann reika til þeirra sem ég skrifa hverju sinni. Svo er aðventan tími samveru – hún er best og mikilvægust.
Aðfangadagur snýst um matargerð hjá mér, ég er allan daginn í eldhúsinu og það finnst mér gera daginn fyrir mig. Á Þorláksmessu förum við alltaf út að borða á Ítalíu á Laugaveginum með systur minni og hennar fjölskyldu en það er hefð frá 1996 og er ómissandi. Þessi jól eru öðruvísi því ég er með mína fjölskyldu í útlöndum núna. Við fögnum stórafmæli mannsins míns og gerum það saman en verðum með hugann hjá fólkinu heima,“ segir Jóhanna.
Aðfangadagur snýst um matargerð hjá mér, ég er allan daginn í eldhúsinu og það finnst mér gera daginn fyrir mig.
Þegar þau bjuggu í Sviss byrjuðu þau að hafa kalkún á aðfangadag og halda í þá hefð. „Ég geri fyllingu, steiki mitt rauðkál og geri þær sósur sem hver og einn vill. Tengdasonur okkar tilvonandi er kokkur og hann hefur síðustu ár galdrað fram dásamlegan forrétt, humar-risotto, sem hefur slegið í gegn. Í eftirrétt erum við með heimatilbúinn ís með möndlu í, mjög skemmtilegt.“
Fjölga samverustundum
Jóhann sér bara fallegt í kringum nýja árið 2019. „Ég fer inn í það með fyrirheit um að gera betur, hlúa að fólkinu mínu og fjölga samverustundum. Þær eru þegar öllu er á botninn hvolft það sem skiptir öllu máli. Að vera góð hvert við annað. Ég hef líka metnað í vinnunni, að gera betur í dag en í gær og efla hag fréttastofunnar. Vinna saman að því markmiði sem við reynum alla daga – að gera góða blaðamennsku enn betri, segja frá og koma því til lesenda, hlustenda og áhorfenda svo sómi sé að. Nýta sóknarfærin alltaf,“ segir Jóhanna að lokum.