Nýjasta lína Farmers Market leit nýverið dagsins ljós. Bergþóra Guðnadóttir, yfirhönnuður Farmers Market, segir línuna vera ívið rómantískari heldur en eldri línur merkisins.
Aðspurð hvaðan innblásturinn kom segir Bergþóra: „Eins og ég hef gert hingað til held ég áfram að leika mér að arfinum og gera tilraunir með efni, form og mynstur. Litirnir eru sóttir í náttúruna, sem fyrr, en að þessu sinni er ég mjög upptekin af sterkum litum sem finnast á jarðhitasvæðum eins og í Landmannalaugum. Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í þessari línu.“
Blómamynstur er áberandi í nýju línunni. „Ég er mikið fyrir blóm en hef ekki unnið með þau sem mynstur fyrr en núna. Þannig að nýja línan mín sem ber nafnið Blómsturvellir er í dálitlu uppáhaldi. Þar hef ég látið búa til blómamynstur í jarðhita-litatónunum mínum og prenta á silki og viskós. Þar að auki erum við með nýja spari ullarsokka sem einnig eru blómum prýddir,“ útskýrir Bergþóra.
Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í þessari línu.
„Ég hef verið að vinna að þessari línu í eitt og hálft ár og núna seint í haust var hún loks öll tilbúin og komin í verslanir. Það er oft löng og hlykkjótt leið og miklar tilfinningar frá hugmynd að tilbúinni vöru,“ segir Bergþóra.
Taka ekki óþarfa áhættu
Fyrsta lína Farmers Market kom út árið 2005. Síðan þá hefur merkið fest sig í sessi og flestir fagurkerar landsins ættu að kannast við fötin frá Farmers Market.
Spurð út í hver sé galdurinn að þessum farsæla rekstri segir Bergþóra: „Við höfum alltaf passað okkur á að sníða okkur stakk eftir vexti. Við erum bara tveir eigendur og það vill þannig til að við erum líka hjón svo að það er mikið í húfi fyrir okkur að taka ekki óþarfa áhættu. Þar að auki erum við bæði listamenntuð svo að viðskiptaeðlið er okkur ekki í blóð borið og við höfum orðið að tileinka okkur með tímanum.“
Við höfum alltaf passað okkur á að sníða okkur stakk eftir vexti.
Á þessum 13 árum hefur fyrirtækið vaxið hægt og rólega. „Fyrir utan hönnunarstúdíóið mitt rekum við tvær verslanir og vefverslun þannig að gott starfsfólk er lykilatriði og þar höfum við verið afar lánsöm bæði hvað varðar starfsfólk hér heima og samstarfsfólk erlendis,“ útskýrir Bergþóra. Hún bætir við að á þessu 13 ára tímabili hafi margt breyst í bransanum.
„Það er margt sem hefur breyst frá því að við byrjuðum tveimur árum fyrir hrun. Það hafa orðið til mörg spennandi fyrirtæki og stórir draumar. Sum hafa lifað en önnur ekki svona eins og gengur og gerist. Það jákvæða að mínu mati er að íslenska hönnunarsenan virðist vera að slíta barnsskónum og ég held að hún geti orðið okkur mikilvægari en við gerum okkur grein fyrir núna. Mér finnst alltaf gaman að bera hönnunarsenuna saman við íslensku tónlistarsenuna sem er svona 20 árum á undan og hefur verið okkur afar dýrmæt.“
Myndir af nýjustu línu Farmers Market / Ari Magg