Skiptar skoðanir eru á hvort gallabuxur séu viðeigandi klæðnaður á Alþingi. En hvað finnst stílista?
Reglulega kemur upp sú umræða um hvort gallabuxur séu viðeigandi klæðnaður á Alþingi. Núna seinast var það Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem lýsti yfir áhyggjum sínum yfir gallabuxnaklæddum þingmönnum. Hann sagði að ekki væri við hæfi að klæðast gallabuxum í þingsal líkt og var greint frá á mbl.is í vikunni.
Skiptar skoðanir eru um málið. En hvað finnst stílista um málið?
„Að mínu mati á fólk á að geta klætt sig hvernig sem er hvenær sem er, og það á við um bæði konur og karla,“ segir stílistinn Ellen Loftsdóttir. Hún bætir við að henni þyki mikilvægast að fólki líði vel í því sem það klæðist, líka þeim sem starfa á Alþingi.
„Mér finnst eiginlega meira áhyggjuefni hér að sitjandi þingmaður sé að velta sér upp úr þessu á vinnutíma. Að ræða gallabuxur er klárlega ekki það sem maðurinn var kosin í að gera,“ segir hún.
Þess má geta að árið 2013 var Elín Hirst, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, áminnt fyrir að klæðast gallabuxum og upphófst mikil umræða í kjölfarið. Nokkru síðar fór Elín þá yfir sögu gallabuxna á Alþingi og lýsti yfir undrun sinni á að gallabuxur þættu ekki í lagi á Alþingi.