Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Ef þetta fréttist þá yrðu það endalokin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þrátt fyrir sprengingu í eftirspurn eftir vændi hafa vændiskaupamál á borði lögreglu sjaldan verið færri og verkefnastjóri Bjarkarhlíðar segir að tilfinning þeirra sem vinna við málaflokkinn bendi til þess að margar íslenskar konur stundi vændi. Í úttekt um vændi í Mannlífi, sem kemur út í fyrramálið, verður meðal annars rætt við tvær fyrrverandi íslenskar vændiskonur sem gefa innsýn í hugarheim þessara kvenna, kynferðisofbeldið sem oftast einkennir fortíð þeirra og afleiðingar vændisins. Önnur þeirra, Eva Dís Þórðardóttir, kemur fram undir nafni en hin kýs nafnleynd vegna barna sinna.

Eva Dís stundaði vændi um nokkurra mánaða skeið árið 2004 í Danmörku og glímir enn við afleiðingarnar. Hún segist ekki taka því sem sjálfsögðum hlut að hafa lifað vændið af en er þakklát fyrir að vera á góðum stað í dag.

Á meðan á vændinu stóð náði ég alveg að ljúga því að mér að þetta væri bara æðislegt, sjálfsvígshugsanirnar komu síðar.

„Á meðan á vændinu stóð náði ég alveg að ljúga því að mér að þetta væri bara æðislegt, sjálfsvígshugsanirnar komu síðar, þegar ég fór að óttast hvað gerðist ef þetta kæmist upp. Hugsanir mínar gagnvart því að segja einhverjum frá voru að þar með væri ég að loka þeim samskiptum. Hugmyndir mínar samræmdust því ekki að fólk gæti þekkt mig áfram ef það vissi þetta, skömmin var svo svakaleg. Ég sá fyrir mér að ef þetta fréttist þá yrðu það endalokin.“

Vill skilja karla sem kaupa vændi

Eva segist hafa velt því töluvert fyrir sér hvað fái karlmenn til að kaupa vændi og hana langi að reyna að skilja það. „Ég væri svo til í að eiga samtal við vændiskaupendur. Hvað er svona heillandi við að eiga þessi nánu innilegu samskipti við einhvern sem þú ert algerlega aftengdur tilfinningalega? Ég skil ekki þessa grimmd, að meiða svona og svo útskúfa fólki úr samfélaginu okkar. Mig langar að sjá sjálfshjálparhópa fyrir karlmenn sem eru tilbúnir að skoða sína eigin hegðun og eigin sársauka. Ekki bara þann sársauka sem þeir valda til dæmis vændiskonunni. Hvað er þeim svo sárt og óheilað? Það eru til hópar fyrir karlmenn sem hafa beitt ofbeldi og vilja hætta því, af hverju ættu ekki að vera til hópar fyrir menn sem vilja hætta að kaupa vændi?“ segir Eva.

Hún segir að hugmyndin um hamingjusömu hóruna er ekki sá innri sannleikur sem hún kannist við. „En ef hún er til þá ber ég virðingu fyrir henni. En við getum ekki tekið hana fram fyrir þær þúsundir vændiskvenna sem þjást í þögninni.“

Lestu nánar um málið í Mannlífi sem kemur út á morgun.

- Auglýsing -

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -