Danskir landeigendur í Skorradalshreppi vilja loka fyrir kalt vatn til sumarhúsalóða við jörð þeirra. Jörðina keyptu þeir á nauðungarsölu af Landsbankanum. Félag sumarbústaðaeigenda stendur í málaferlum við Danina og er málið á leið til Landsréttar.
Héraðsdómur Vesturlands synjaði fyrir skemmstu kröfu Ingólfs Garðarssonar, sumarbústaðareiganda í landi Indriðastaða í Skorradalshreppi, um staðfestingu lögbanns sem sýslumaðurinn á Vesturlandi lagði við því að landeigendur loki fyrir rennsli neysluvatns úr vatnsveitu í landi jarðarinnar.
Landeigendurnir, Henrik Falster-Hansen og Janne Dorte Knudsen, voru sýknuð af kröfunni um að þeim verði gert óheimilt að loka fyrir rennsli neysluvatns úr vatnsveitu í landi jarðarinnar Indriðastaða. Ingólfi var jafnframt gert að greiða landeigendunum 900.000 krónur í málskostnað.
Málinu verður áfrýjað
Kristín Sólnes, lögmaður Ingólfs, segist gera ráð fyrir að málinu verði áfrýjað til Landsréttar. „Niðurstaðan byggist á því að samningskvaðirnar séu niðurfallnar með vísun til þess að jörðin var á sínum tíma seld á nauðungasölu, en um þá niðurstöðu má deila,“ segir hún.
Ingólfur er eigandi lóðarinnar Skógaráss 1 í Skorradalshreppi þar sem sumarhús hans stendur. Lóðin var stofnuð úr landi jarðarinnar Indriðastaða en út frá henni hefur verið skipulagt frístundahúsasvæði með um 200 lóðum sem seldar voru úr jörðinni. Elsta svæðið sunnan við Skorradalsvatn er ódeiliskipulagt en nýrri frístundahúsasvæðin hafa verið deiliskipulögð og spanna mörg skipulagssvæði, þ.á m. þar sem lóð Ingólfs er.
Mega ekki skrúfa fyrir vatnið
Bárður Hafsteinsson, gjaldkeri Félags sumarbústaðaeigenda í Indriðastaðalandi, staðfestir að það sé félagið sem standi á bak við lögbannið og málareksturinn og fullyrðir að málinu verði áfrýjað. Lögbannið er enn í gildi og framlengist sjálfkrafa þegar áfrýjun verður lögð fram.
Ingólfur bendir á það þar sem hans bústaður sé á nýrra svæðinu henti hans kaupsamningur málarekstrinum. „Málið er að í þessu hverfi eru svo margir mismunandi samningar og þar af leiðandi margar mismunandi túlkanir á kvöðunum,“ segir hann.
„Í mínum samningi stendur að landeigandi skuli útvega vatn að lóðamörkum og síðan sjái ég um framhaldið. Það stendur s.s. ekki hversu mikið vatnið á að vera en a.m.k. nóg í sturtu, klósett og slíkt, það er lágmarkið,“ segir hann og bendir á að landeigandi megi ekki skrúfa fyrir vatnið fyrr en Landsréttur sé búinn að taka á málinu.
„Landeigandinn vill græða á okkur“
Ingólfur útskýrir að deilurnar hafi staðið yfir í mörg ár og séu í raun á milli sumarbústaðafélagsins, en ekki hans persónulega og landeigenda.
„Landeigandinn keypti jörðina 2013, síðan hefur hann séð leik á borði að fara græða eitthvað á okkur. Hann er í raun búinn að gefa út reikninga á nokkra aðila, þar á meðal mig. Þar kemur fram að árgjöldin fyrir vatnið verða um 35-40 þúsund krónur,“ segir hann og minnist á að fjárfestar hafi borað nýja holu í landi Mófellsstaða upp úr 2005, jörðin hafi verið skipulagt sumarbústaðaland og í kaupsamningum þeirra lóða sé kveðið á um að sumarbústaðaeigendur skuli greiða hóflegt árgjald fyrir kalt vatn. „Þetta hafa hann séð, landeigandinn, og ætlað að láta þessar kvaðir ganga yfir alla aðra og bæta í, eins og maður segir.“
Ingólfur segist gera sér grein fyrir að það kosti að reka borholuna. „Félagið hefur tekið þátt í kostnaði við að reka holuna og þá er bara spurning um hvað sé sanngjarnt að greiða fyrir þetta. Að borga 40 þúsund á ári, það er enginn til í svoleiðis vitleysu. Ég persónulega er til í að borga 10-15 þúsund á ári ef ég get treyst því að fá alltaf vatn. En að landeigandinn eigi að fá einhverjar 10 milljónir á ári beint í vasann fyrir kalt vatn, þá er hann ekki á réttum stað, blessaður maðurinn.“
Ingi Tryggvason, lögmaður landeigendanna, hafði ekki heyrt af því hvort málinu yrði áfrýjað þegar Mannlíf náði af honum tali og hafði ekkert frekar um málið að segja.