Íþróttakonan Annie Mist Þórisdóttir gekkst undir hjartaaðgerð á mánudaginn. Þessu greindi hún frá á Instagram í nótt. Batakveðjum frá aðdáendum hefur rignt yfir hana síðan.
Góðum kveðjum rignir yfir crossfit-meistarann Annie Mist á samfélagsmiðlum eftir að hún greindi frá því á Instagram að hún gekkst undir hjartaaðgerð á mánudaginn. Annie hefur glímt við hjartsláttartruflanir undanfarin sex ár. Hún leitaði sér læknishjálpar vegna þess fyrr á árinu og ákvörðun var tekin um að senda hana í hjartaþræðingu.
Annie segir í færslu á Instagram að henni þyki læknavísindin ótrúleg. „Þarna lá ég á skurðarborðinu með fullri meðvitund, með þrjá víra sem leiddu í hjartað,“ skrifaði hún meðal annars.
Aðgerðin gekk vel að sögn Annie. Hún stefnir á að hvíla sig í fimm daga til viðbótar áður en hún fer á fullt í æfingar aftur.
Eins og áður sagði rigna góðum kveðjum yfir Annie en hún er með 973 þúsund fylgjendur á Instagram.