Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Veit fátt betra en að láta hræða sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Draugar, uppvakningar, blóðsugur og alls kyns fleiri óhugnanlegar verur verða á sveimi á hryllingsmyndahátíðinni Frostbiter sem fer fram á Akranesi helgina 23.-25. nóvember.

Lovísa Lára Halldórsdóttir er einn skipuleggjenda hryllingsmyndahátíðarinnar Frostbiter.

„Þetta er alþjóðleg hátíð, þar sem við erum að taka inn hryllingsmyndir alls staðar að úr heiminum. Bæði eldri klassísk og nýjar myndir þannig að áhorfendur munu sjá þarna ferska strauma í hryllingsmyndagerð,“ segir Lovísa Lára Halldórsdóttir en hún og maður hennar, Ársæll Rafn Erlingsson, standa fyrir hrollvekjuhátíðinni Frostbiter á Akranesi helgina 23.-25. nóvember.
Fjöldi kvikmynda verður sýndur á hátíðinni og að sögn Lovísu mun fjölbreytni ráða ríkjum. „Já, þarna verða sígildar myndir í fullri lengd og svo 43 stuttmyndir af öllum gerðum og í öllum lengdum, alveg frá einni mínútu og upp í hálftíma,“ segir hún og getur þess að stuttmyndunum komi til með að verða skipt í fjóra flokka: Skrímsli og álög, draugagang, óhugnað og furðuverur og hið illa að innan. „Síðan erum við með partísýningu á upprunalegu Little Shop of Horrors þar sem kjötsúpa og brennivín verða í boði. Sjálfur Páll Óskar kemur svo á sunnudag og sýnir gamla hryllingsmynd á super8 filmuvél og hrollvekjustiklur sem hann hefur klippt sjálfur.“

Íslenska hrollvekjan í sókn
Þetta er í þriðja sinn sem Frostbiter fer fram og segir Lovísa gaman að sjá hversu ólíkar myndirnar á hátíðinni eru eftir því hvaðan þær koma. „Það er líka skemmtilegt að sjá að peningar skipta ekki höfuðmáli í gerð góðrar hrollvekju. Sumar myndir eru til dæmis teknar upp með lélegri myndavél og tæknibrellurnar ekkert spes en það er eitthvað frábært við þær í grunninn sem hefur áhrif á áhorfendur.“
Íslenska hrollvekjan fær að sjálfsögðu veigamikinn sess á Frostbiter en Lovísa segir að hátíðinni hafi aldrei borist jafnmargar innlendar myndir og í ár. Mikill uppgangur sé greinilega í gerð íslenskra hrollvekja. „Sem dæmi erum við að sjá leikstjóra eins og Erling Óttar Thoroddsen gera frábæra hluti með sínum hryllingsmyndum Child Eater og Rift, sem er þvílík hvatning fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk sem hefur áhuga á gerð hryllingsmynda. Þannig að íslenska hrollvekjan er í mikilli sókn og kominn tími til því Íslendingar hafa alla burði til að gera góðar hryllingsmyndir. Bæði státum við af góðu kvikmyndagerðarfólki og góðum efnivið, gömlum þjóðsögunum sem hægt er að sækja innblástur í.“
Hún segir sömuleiðis gaman að sjá þróunina sem er að eiga sér stað í gerð íslenskra hryllingsmynda. „Fyrsta árið voru íslensku stuttmyndirnar ótrúlega fjölbreyttar og áttu kannski ekki margt sameiginlegt, fyrir utan það að margar þeirra voru greinilega undir amerískum áhrifum. Núna erum við hins vegar að sjá myndir um álfa, Grýlu og fleira í þeim dúr þannig að það er virkilega skemmtilegt að sjá þróunina.“

„Núna erum við hins vegar að sjá myndir um álfa, grýlu og fleira í þeim dúr þannig að það er virkilega skemmtilegt að sjá þróunina.“

Páll Óskar sýnir Equinox á super8 filmuvél og hrollvekjustiklur sem hann hefur klippt sjálfur. Mynd / Aldís Pálsdóttir

Ótrúlegir möguleikar
Sjálf er Lovísa menntuð í kvikmyndagerð og á meðal annars að baki nokkrar hryllingsmyndir. „Ég gerði á sínum tíma nokkrar stuttar hrollvekjur sem vöktu athygli erlendis en mér fannst vanta vettvang á Íslandi til að sýna þær. Ég ræddi þetta við Ársæl sem er líka í kvikmyndagerð og hann stakk upp á því að við færum sjálf af stað með hryllingsmyndahátíð í heimabænum hans Akranesi. Þannig byrjaði þetta.“
Hún segist vonast til að sjá sem flesta á hátíðinni í næstu viku, ekki síst ungt kvikmyndagerðarfólk. „Vonandi, því hryllingsformið er ótrúlega skemmtilegt og býður upp á alls kyns möguleika og hátíð eins og þessi gæti orðið því hvatning til að spreyta sig í gerð slíkra mynda. Fyrir utan það hefðu auðvitað bara flestir hrikalega gaman af því að mæta því ég get lofað þér því að það jafnast fátt á við það að vera með vinum sínum inni á köldum vetrardegi og láta hræða úr sér líftóruna,“ segir hún og glottir.

Nánari upplýsingar um hátíðina og dagskránna má finna á Facebook-síðunni Frostbiter: Icelandic horror film festival.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -