Gulldrengirnir og heiðursmennirnir, kláru karlarnir og góðu strákarnir, sem eru svo mikil góðmenni og myndu aldrei gera flugu mein. En voru ásakaðir um kynferðisbrot.
Hvað gerist þá? Ímyndin af brosandi gulldreng sem skemmtir svo mörgum, eða heiðursmanni í fínum jakkafötum með flotta háskólagráðu, hún passar ekki inn í steríótýpuna af kynferðisbrotamanni – sem er skítugur, eflaust fullur, helst þekktur fyrir að vera skíthæll. Gulldrengirnir passa ekki inn í þetta fyrirframgefna samfélagsmót, hafa ekki þessa hentugu ímynd sem gerir fólki kleift að hata þá. Því kynferðisbrotamenn hljóta að vera skrímsli.
Í stað þess að leyfa brotaþola njóta vafans fer fólk að leita að ástæðum til að kenna henni um. Þau höfðu heyrt að hún væri svo klikkuð. Alltaf að ljúga. Hann hefur aldrei gert svona við mig. Hvað var hún annars að gera þarna svona seint um kvöld? Var hún ekki að reyna við hann? Hún er nú ekkert smábarn, óþarfi að gera læti úr smákáfi. Svona klædd, hún augljóslega vildi athygli. Saklaus uns sekt er sönnuð!
En kynferðisbrotamenn eru ekki skrímsli. Þetta er staðreynd sem fólk á erfitt með að átta sig á. Nýjasta herferð Stígamóta, #allirkrakkar, spyr: vilt þú vera foreldri þolanda, eða geranda? Á fólk auðveldara með að horfast í augu við að einhver náin þeim hafi verið beitt ofbeldi, heldur en að einhver náinn þeim sé gerandinn? Þetta köllum við skrímslavæðingu. Þegar við getum ekki hugsað okkur að einhver sem okkur þykir vænt um gæti gert eitthvað ófyrirgefanlegt.
Tilhneigingin er þá að ráðast á brotaþola. Við erum vön því að sópa mölbrotnum konum undir teppið og skipa þeim að þegja því þessir heiðursmenn eru með „mannorð“ sem má aldrei „myrða“, eða að við megum ekki ganga „of langt“ í gagnrýninni, því þeir eru eftir allt saman engin skrímsli. En skrímslin eru ekki til. Bara menn.
Síðast en ekki síst / eftir Elísabetu Ýri Atladóttur