Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

„Líkt og eiga margar kærustur í einu sem eiga allar sama afmælisdaginn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hljómsveitin Lights on the highway kemur saman eftir nokkurra ára hlé og heldur tvenna tónleika milli jóla og nýjárs. Við heyrðum í Kristófer Jenssyni, söngvara bandsins, og hann sagði okkur meðal annars frá uppruna bandsins.

„Bandið varð til síðsumars 2003 þegar ég og Agnar Eldberg gítarleikari hittumst á Menningarnótt en við höfðum þekkst frá unglingsaldri. Ég hafði lánað honum Nirvana-vínylplötu mörgum árum áður, Come as you are-smáskífuna minnir mig, og það bar meðal annars á góma þetta kvöld,“ segir Kristófer. „Við vorum báðir á þeim tímapunkti í tónlistinni að við vorum að leita eftir nýjum verkefnum. Á þeim tíma hafði ég afnot af stúdíói hjá Skara og Junior, vinum mínum í Hafnarfirði, og stakk upp á að við mundum hittast og taka upp nokkur lög þar sem þeir voru að spila í útlöndum og plássið laust til afnota.“

Fundu trommara á Hróarskeldu

Agnar og Kristófer tóku upp fimm lög á tveimur kvöldum, þar á meðal þrjú ný lög sem urðu nánast til að staðnum. Þessi lög rötuðu svo öll á fyrstu plötu hljómsveitarinnar. Skömmu síðar gekk svo Karl Daði Lúðvíksson bassaleikari til liðs við þá og þeir byrjuðu að taka upp og spila sem acoustic-tríó undir nafninu Lights on the highway. „Hljómsveitin starfaði í talsverðan tíma þannig, ég og Aggi báðir á gítar og í söng og Kalli á bassann; alltaf órafmagnað. Við spiluðum á pínulitlum kaffihúsum út um alla Reykjavík og þá hafði myndast skemmtilegur hópur af tónlistarfólki sem var á svipaðri línu og spilaði oft saman á þessum tíma, Tenderfoot, Indigo, Pétur Ben, Moody Company og fleiri. Við vorum alltaf með í bakhöndinni að finna okkur trommara og hann fannst fyrir tilviljun á Hróaskelduhátíðinni í Danmörku 2004 þar sem ég og Halli lentum saman í tjaldbúðum,“ segir Kristófer og er hér að tala um Þórhall Reyni Stefánsson. „Eftir að heim var komið var stungið í samband og Halli kominn á bak við trommusettið í bandinu. Rúmu hálfu ári síðar vorum við komnir í Stúdíó Grjótnámuna fyrir tilstilli Eiríks Rósberg Eiríkssonar stórvinar okkar en þar var fyrsta platan okkar tekin upp á mjög skömmum tíma. Við upptökur á plötunni bættist síðan Gunnlaugur Lárusson í hópinn en við fengum hann „að láni“ frá vinum okkar í Brain Police. Gulli skilaði sér reyndar ekki aftur til þeirra fyrr en einhverjum árum síðar.“

Ást, togstreita, fíflaskapur

Stefán Gunnlaugsson hljómborðsleikari bættist svo í hljómsveitina en einnig hafa gítarleikararnir Konráð Bartch og Bjarni Þór Jensson komið að bandinu á einhverjum tímapunkti. Kristófer segir að erfitt sé að skilgreina tegund tónlistarinnar sem þeir spila en hipparokk komist kannski næst því. Þeir hafa sent frá sér tvær plötur, Lights on the Highway (2005) og Amanita Muscaria (2009) auk nokkurra útvarpssmáskífa, þar á meðal lagið Leiðin Heim sem er sennilega þekktasta lagið þeirra og það eina á íslensku. „Við höfum spilað út um allar trissur, allt frá pöbbum í Breiðholti til London Astoria og The Marquee á Englandi. Við spiluðum mikið á Dillon, Gauknum, Grand Rock og þessum helstu tónleikastöðum á sínum tíma þar sem nándin og hávaðinn var allsráðandi. Við vorum einnig þess heiðurs aðnjótandi að fá að spila í Silfurbergi á Opnunarhátíð Hörpu ásamt fleiri frábærum íslenskum hljómsveitum. Árið 2012 ákváðum við að setja hljómsveitina til hliðar þar sem Aggi var að flytja til Bandaríkjanna, og héldum þá tónleika undir nafninu „Afsakið Hlé“. Hljómsveitin hefur þó aldrei hætt, enda stór partur af okkur öllum.“

„Við höfum spilað út um allar trissur, allt frá pöbbum í Breiðholti til London Astoria og The Marquee á England.“

Hvað er minnisstæðast? Ást, vinátta, togstreita, sköpunargleði, rifrildi, ferðalög og fíflaskapur. Það heitir víst að vera í hljómsveit. Líklega er þetta eins og að eiga margar kærustur í einu sem eiga allar sama afmælisdaginn. Að hafa skapað eitthvað saman sem við getum verið stoltir af stendur þó alltaf upp úr, það er bara þannig.“

- Auglýsing -

Furðuleg sjálfhverfa

Hljómsveitin kom síðast saman 2015 og þá tóku þeir eins konar míni-tour og spiluðu meðal annars á Quest, Dillon, KEX, Húrra, Græna hattinum og Eistnaflugi. „Það er í raun Stefáni Magnússyni að þakka að við höfum látið verða af þessu bæði þá og núna en við ætlum að halda tvenna tónleika á Hard Rock 29. og 30. desember næstkomandi. Miðasalan er í fullum gangi á tix.is og gengur vonum framar, við erum reyndar alveg orðlausir yfir viðbrögðunum sem við höfum fengið. Við hlökkum allir mikið til að hittast og fá að spila saman aftur þessi tvö skipti opinberlega. Vonandi fáum við að smita sem flesta á þeim stutta tíma af þessari furðulegu sjálfhverfu sem hljómsveitin er.“

Mynd / Aðsend

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -